Samfélagsmiðlastjarnan Manuela Ósk Harðardóttir, vakti athygli í gær þegar hún biðlaði til fylgjenda sinna að setja like við þær myndir sem hún setur inn og sýna stuðning við efni hennar í stað þess að fylgjast bara með. Það virðist hafa virkað en Manuela hefur nú fengið hátt í 2000 like við nýjustu mynd sína á Instagram.
Manuela var gestur í útvarpsþætti Loga Bergmanns og Huldu Bjarna á K100 í morgun þar sem hún ræddi málið. Hún segir að á einni viku hafi 450 þúsund manns farið inn á Instagram síðuna hennar en að hún hafi bara fengið um 300 like á hverja mynd þá. Það hafi verið kveikjan að hugleiðingu hennar.
Manuela tekur þó fram að hún segi like-in ekki stjórna lífi sínu líkt og hefur verið sagt í umræðunni. Hún taki svona hlutum ekki persónulega og hafi ekki sett færsluna inn út af vanlíðan.
„Ég var aldrei reið eða sár eða brjáluð,“ segir Manuela og bætir við að málið sé tekið úr samhengi. Hún hafi bara sett þetta fram sem hugleiðingu til sinna fylgjenda.