Bumbubúinn – hvort verður það?
Viltu vita hvort þú munir eignast stelpu eða strák? Samkvæmt rannsókn frá Newcastle háskóla sem náði yfir þúsundir fjölskyldna kom í ljós að svarið liggur í genum pabbans. Ef verðandi pabbinn á marga bræður eru meiri líkur á að hann eignist strák. Ef hann á margar systur eru meiri líkur á að hann eignist stelpu.
Fjallað er um rannsóknina á vef Sciencedaily og þar kemur fram að byggt var á upplýsingum um 556.387 manns frá Norður-Ameríku og Evrópu aftur til ársins 1600. Corry Gellatly við Newcastle háskóla komst að því að karlmenn erfa frá foreldrum sínum líkurnar á að eignast frekar syni eða dætur út frá kyni systkina sinna. Því miður er engu hægt að spá fyrir um kyn út frá verðandi mömmunni samkvæmt Gellatly.
Til stuðnings á þessum niðurstöðum kemur meðal annars fram að eftir seinni heimsstyrjöldina gerðist það í mörgum löndum sem tóku þátt í stríðinu að fleiri strákar fæddust í framhaldinu. Í Bretlandi til dæmis fæddust þá tveimur strákum fleiri en vanalega fyrir hverjar hundrað stelpur árið eftir stríðslok.
Líkurnar á að menn sem áttu marga syni fengju einhvern af sonum sínum heim lifandi úr stríðinu voru meiri heldur en ef þeir áttu t.d. bara einn son og margar dætur. Það passar því vel við rannsóknarniðurstöðurnar því þá eru fleiri bræðra-pabbar að ná að eignast afkvæmi eftir stríðið heldur en systra-pabbar sem ná ekki eins margir heim til að fjölga sér.
Einnig kemur fram að almennt sé þekkt að aðeins fleiri strákar fæðast fyrir hverjar hundrað stelpur almennt (um 105 strákar fyrir hverjar 100 stelpur) og líka að fleiri strákar deyja áður en þeir ná þeim aldri að geta eignast börn sem rímar vel við stríðspælinguna og rannsóknina. Sama genið er líklega að stjórna þessu, fleiri strákar fæðast almennt og enn fleiri strákar fæðast eftir stríð til að viðhalda jafnvæginu.
Þá er nú bara spurningin um að fara að telja systkinin í ættinni og spá í kyn bumbubúans.
Sjá einnig: Minnsti drengur sögunnar kominn heim