Auglýsing

Ísland í stafrænu formi

Það er augljóst að einhverjir af þeim ótal mörgu ferðamönnum sem hafa heimsótt Ísland undanfarin ár hafa verið tölvuleikjaframleiðendur. Fyrir nokkru síðan kom í ljós að næsti leikur Hideo Kojima (heilinn á bak við Metal Gear Solid leikina), Death Stranding, gerist í umhverfi sem er byggt á óbyggðum Íslands. Fyrir nokkrum dögum kynnti fyrirtækið Quixel svo tól sem nýta myndir úr íslenskri náttúru og hægt að nota til að framleiða ótrúlega raunverulega þrívíða heima í Unreal grafíkvélinni. Fyrirtækið birti myndband sem sýnir tólin í notkun og það er erfitt að trúa því að þetta sé framleitt í tölvu en ekki tekið upp hér á Íslandi.

Fyrirtækið birti svo annað myndband þar sem útskýrt var hvernig tólin virka.

Quixel selur aðgang að gagnasöfnum sínum, svo það er aldrei að vita nema einhverjir leikjaframleiðendur fari að búa til leiki sem gerast í umhverfi sem svipar mjög til íslenskrar náttúru. Þar sem Ísland er vinsæll tökustaður fyrir Hollywood-myndir kemur kannski heldur ekkert á óvart að tölvuleikjaframleiðendur vilji freista þessa að fanga töfra íslenskrar náttúru.

Assassin‘s Creed á Íslandi?

Á föstudag fjallaði tölvuleikjavefurinn Kotaku svo um möguleikann á því að næsti leikur í Assassin‘s Creed-seríunni gerist á víkingaöld. Leikirnir fjalla um leynilega reglu launmorðinga sem berjast gegn áhrifum hinna illu Templarareglu í ólíkum löndum og á ólíkum skeiðum mannkynssögunnar.

Umhverfið í Death Stranding er kunnuglegt.

Getgáturnar eru byggðar á myndum úr leiknum The Division 2, öðrum leik frá sama framleiðanda, sem sýna tímarit með mynd af víkingi sem virðist halda á mun sem sóst er eftir í Assassin‘s Creed-leikjunum. Þetta er talið vísbending.

Það er engin spurning að það þarf að uppfæra tölvubúnaðinn í leikjatölvum til að ráða við grafík eins og tól Quixel skapa, en það er einmitt gert ráð fyrir að næsta kynslóð af PlayStation-leikjatölvum komi út um svipað leyti og næsti Assassin‘s Creed. Þannig að eftir tæp tvö ár gætum við kannski verið að klöngrast um óbyggðir Íslands sem launmorðingjar á víkingaöld í umhverfi sem er svo gott sem óaðgreinanlegt frá raunveruleikanum.

Síðasti Assassin’s Creed leikurinn gerðist í Grikklandi til forna, sá næsti gerist kannski á kunnuglegri slóðum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing