Það áttu sér stað ansi skemmtileg atvik í Selfosskirkju um helgina. Í fermingarmessum á laugardag og sunnudag skellti sr. Guðbjörg Arnardóttir gaddaólum á sig. Frá þessu er greint á vef DFS.
Guðbjörg fjallaði um Eurovision framlag Íslendinga í ræðu sinni og hvaða boðskap væri hægt að draga úr atriði og texta Hatara.
Sjá einnig: Fyrrum sigurvegari Eurovision grátbiður Hatara um að haga sér: „Íslendingar eru með eitthvað stórt í bígerð“
Guðbjörg segir í samtali við mbl.is að boðskapur Hatara hafi gripið hana strax og að hún sé mjög hrifin af því sem hópurinn sé að gera.
„Í fermingarmessunni fer ég með smá brot úr textanum og kalla fram að þetta er nákvæmlega það sem við viljum ekki. Stundum fyllist ég vanmætti þegar ég sé hatrið sigra í heiminum, en ég á mér draum um að þetta unga, fallega fólk sem er að fermast velji leið kærleikans en ekki hatursins og breyti heiminum,“ segir Guðbjörg í samtali við mbl.is.