Auglýsing

Söngleikurinn We Will Rock You settur upp í fyrsta sinn á Íslandi

Söngleikurinn We Will Rock You verður settur á svið í Háskólabíói í ágúst næstkomandi. Söngleikurinn, sem saminn var af Ben Elton í samstarfi við hljómsveitina Queen, var frumsýndur árið 2002 á West End þar sem hann var sýndur fyrir fullu húsi fram til ársins 2014 og sló aðsóknarmet leikhússins Dominion theatre.

Uppsetningin hefur meðal annars verið tilnefnd til Olivier verðlaunanna, sem þykir einn mesti heiður í bresku leikhúsi. Þá hefur hann einnig verið settur á svið á Broadway í New York, Ástralíu, Spáni, Rússlandi, Japan og víðar. 

Queen hefur notið gríðarlegra vinsælda síðustu misseri eftir sýningu kvikmyndarinnar Bohemian Rhapsody sem sýnd var hér á landi á síðasta vetri og var meðal annars tilnefnd til Óskarsverðlauna og Golden Globe.

Listrænir stjórnendur eru þeir Vignir Rafn Valþórsson leikstjóri, Karl Olgeirsson tónlistarstjóri og Chantelle Carey danshöfundur. Axel Hallkell Jóhannesson hannar sviðsmynd, Rebekka Jónsdóttir hannar búninga, ljósahönnun er höndum Freys Vilhjálmssonar og um hljóðhönnun sér Aron Þór Arnarsson.

Það er aðstandendum sýningarinnar mikill heiður að tilkynna að engin önnur en Ragnhildur Gísladóttir fer með hlutverk Killer Queen  í sýningunni og á móti henni, í hlutverki Kashoggi, verður Björn Jörundur Friðbjörnsson

Opnar áheyrnarprufur verða haldnar fyrir önnur hlutverk í sýningunni.

Prufur fyrir kór og dansara fara fram þann 5. júní og fyrir önnur hlutverk 6. júní. Allar frekari upplýsingar um áheyrnarprufurnar verður að finna á Facebook síðu söngleiksins: „We Will Rock You – Ísland“.

Queen

Hljómsveitin Queen var stofnuð árið 1971 og var skipuð þeim Brian May, Roger Taylor, John Deacon og Freddie Mercury. Tveimur árum síðar skrifuðu liðsmenn sveitarinnar undir samning við útgáfufélagið EMI. Það sama ár kom platan Queen út ásamt því að hljómsveitin fór í sína fyrstu stóru tónleikaferð um Bretland. Hljómsveitin gaf út sína þriðju plötu árið 1975, A Night At The Opera en á henni var að finna lagið Bohemian Rhapsody. Lagið, sem er 5 mínútur og 55 sekúndur, þótti ekki líklegt til að fá mikla spilun í útvarpi en varð að einu vinsælasta lagi allra tíma og sat í fyrsta sæti breska vinsældalistans í níu vikur. Ári síðar gaf hljómsveitin út plötuna A Day At The Races og hélt í kjölfarið opna tónleika í Hyde Park í London sem talið er að allt að 200.000 manns hafi mætt til að sjá. A Day At The Races  naut mikilla vinsælda og seldust til að mynda um 500.000 eintök í forsölu. Árið 1977 gaf Queen út plötuna News Of The World þar sem var að finna lögin We Are The Champions og We Will Rock You. Hljómsveitin var síðan fyrsta stóra rokkhljómsveitin til að halda í tónleikaferðalag um Suður-Ameríku og spilaði sveitin meðal annars fyrir rúmlega 130.000 manns í Sao Paolo og voru þeir lengi taldir stærstu tónleikar sögunnar. Frammistaða hljómsveitarinnar á Live Aid tónleikunum í London árið 1985 var af mörgum talinn hápunktur tónleikanna og markaði tímamót á ferli Queen. 

Þann 23. nóvember 1991 tilkynnti Freddie Mercury heimsbyggðinni að hann væri með alnæmi og lést hann degi síðar á heimili sínu. Fréttir af dauða Mercury komu sem reiðarslag fyrir aðdáendur Mercury og Queen. Til að votta Mercury virðingu sína gáfu liðsmenn sveitarinnar plötuna Bohemian Rhapsody/ These Are The Days Of Our Lives út í sérstakri útgáfu og gáfu allan hagnað af útgáfu plötunnar til Terrence Higgins sjóðsins. Platan fór beint í fyrsta sæti breska vinsældalistans þar sem hún var í fimm vikur og safnaði yfir milljón pund fyrir samtökin. Queen var þar með fyrsta hljómsveitin til að toppa vinsældalista Bretlands tvisvar sinnum með sama lagi. Árið 1992 var Freddie veitt viðurkenning fyrir framlag sitt til breskrar tónlistar á BRIT verðlaununum.

Árið 1995 luku Brian, Roger og John við að taka upp efni sem hljómsveitin hafði byrjað að semja og vinna að árið 1991 með Freddie, og gáfu út plötuna Made In Heaven.

Árið 2002 var söngleikurinn We Will Rock You frumsýndur á West End í London og sýndur þar til ársins 2014. Þar að auki hefur söngleikurinn verið sýndur í Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum, Rússlandi, á Spáni og víðar.

Árið 2005 héldu Brian og Roger í fyrstu tónleikaferð Queen síðan 1986 og komu þeir lengi vel fram með söngvaranum Paul Rodgers. Síðan 2012 hefur söngvarinn Adam Lambert komið fram með hljómsveitinni.

Ben Elton

Ben Elton er margverðlaunaður rithöfundur, leikskáld, þáttagerðarmaður, handritshöfundur og ljóðskáld. Hann er einnig leikstjóri og uppistandari og hefur tekið að sér nokkur leikhlutverk. Ben fæddist árið 1959 í Catford í suðurhluta London, eftir að hann lauk grunnmenntun lærði hann leiklist við Háskólann í Manchester.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing