Auglýsing

10 bestu íslensku hlaðvörpin!

Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum að hlaðvörp eru að tröllríða íslensku menningarlífi um þessar mundir. Hlaðvörp, eða „podcast” eru ekki ný af nálinni en fyrstu hlaðvörpin komu á sjónarsviðið í iPod margmiðlunarspilurunum í kringum 2004. Hlaðvörp eru umræðuþættir sem hlaða má niður í margmiðlunarspilara eða hlusta á í þar til gerðum smáforritum á netinu. Hver sem er, sem á hljóðnema og klippiforrit og hefur eitthvað skemmtilegt eða merkilegt að segja getur byrjað með sitt eigið hlaðvarp og eru Íslendingar orðnir fílelfdir hlaðvarparar!

Nútíminn spurði netverja um bestu íslensku hlaðvörpin og hér er niðurstaðan:

Í ljósi sögunnar (hlusta)
Þegar Íslendingar eru spurðir um besta íslenska hlaðvarpið var langvinsælasta svarið Í ljósi sögunnar í umsjón Veru Illugadóttur. Í þættinum eru málefni líðandi stundar skoðaðir í ljósi sögunnar. Farið er yfir ýmsa sögulega atburði, staði og merkilegt fólk með tilliti til nútímans og eru margir stórgóðir og merkilegir þættir í seríunni sem vert er að kíkja á. Hægt er að hlusta á Í ljósi sögunnar í spilara RÚV, í hlaðvarpsappinu og á Spotify.

 

 

Morðcastið (hlusta)
Flestir sem þekkja til hlaðvarpsbylgjunnar ættu að kannast við bandaríska  hlaðvarpið My Favorite Murder en þar ræða þær Georgia og Karen um hin ýmsu morð- og glæpamál. Morðcastið er svar okkar Íslendinga en hlaðvarpið er í umsjá Unnar Borgþórsdóttur og góðra vina hennar. Í hverjum þætti eru tekin fyrir tvö skandinavísk morðmál og þau krufin til þurrðar. Þættirnir eru skemmtilegir, fræðandi og hrollvekjandi og er Morðcastið eitthvað sem sannir glæpaaðdáendur ættu ekki að láta framhjá sér fara. Hægt er að hlusta á Morðcastið í hlaðvarpsappinu og á Spotify. Morðcastið má einnig finna á Twitter og Instagram.

 

BíóTvíó (hlusta)
BíóTvíó er vikulegt hlaðvarp um íslenskar kvikmyndir. Þar hittast vinirnir Andrea Björk og Steindór Grétar eftir að hafa horft á eina íslenska kvikmynd og ræða svo málin. Þau einsettu sér það markmið að horfa á allar íslenskar kvikmyndir sem framleiddar hafa verið og ræða það af „takmarkaðri þekkingu en töluverðri ástríðu” eins og þau segja sjálf. Í hverjum þætti eru málin rædd og ein kvikmynd tekin fyrir sem getur oft verið skemmtilegt, fróðlegt og furðulegt enda af mörgu að taka þegar kemur að íslenska kvikmyndabákninu og margar kvikmyndir sem mögulega enginn hefur séð í háa herrans tíð. Hægt er að hlusta á BíóTvíó á Alvarpinu, í hlaðvarpsappinu og hér á Nútímanum.

 

 The Snorri Björns Podcast Show (hlusta)
Ljósmyndarinn, crossfitáhugamaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn Snorri Björns (@snorribjorns) heldur úti stórskemmtilegu hlaðvarpi þar sem hann fær til sín þjóðþekkta gesti og ræðir málin. Hlaðvarpið er fullkomið fyrir langar bílferðir, enda eru þættirnir gjarnan mjög langir en skemmtilegir engu að síður. Þáttarstjórnandinn spyr iðullega góðra spurninga sem gestirnir svara af mikilli einlægni og læra hlustendur satt best að segja alltaf eitthvað nýtt um gesti þáttanna við hlustunina. Hægt er að hlusta á The Snorri Björns Podcast Show á vefsíðu hlaðvarpsins, í hlaðvarpsappinu og á Spotify.

 

 Fílalag (hlusta)
Þeir félagarnir Snorri og Bergur Ebbi eru frumkvöðlar í íslensku hlaðvarpssenunni en þátturinn þeirra Fílalag hóf göngu sína á Alvarpinu og Nútímanum árið 2014. Þættirnir eru fyndnir og skemmtilegir, enda ekki hægt að búast við öðru af Bergi Ebba einum fyndnasta manni Íslands og Snorra Helgasyni, tónlistarmanni en í hverjum þætti taka félagarnir fyrir eitt lag og fjalla um það í menningarlegu, samfélagslegu og sögulegu samhengi. Fílalag er líklegast eina íslenska hlaðvarpið sem á sérstakan aðdáendaklúbb á Facebook, Fílahjörðin en hópurinn telur 600 manns þegar þetta er skrifað. Hægt er að hlusta á Fílalag í hlaðvarpsappinu, á heimasíðu hlaðvarpsins og á Spotify.

 

Grár köttur (hlusta)
Grár köttur er umræðuhlaðvarp í umsjón Önnu Marsibilar Clausen og er flutt á RÚVnúll, vefsvæði RÚV fyrir ungt fólk. Í Gráa kettinum læðast hlustendur í kringum menn og málefni í leit að hugljómun, nýjum sjónarhornum og sögum sem skipta máli eins og segir í lýsingu hlaðvarpsins. Gráa kettinum er ekkert heilagt og tekin eru fyrir ýmis málefni með góðum gestum. Rætt hefur verið um langvarandi veikindi, hinseginleikann, ófrjósemisaðgerðir karla, umhverfis- og loftslagsmál og íslenska menningu. Grái kötturinn tekur á öllu og engu! Hægt er að hlusta á Gráa köttinn í spilara RÚV, á vefsvæði RÚVnúll, í hlaðvarpsappinu og á Spotify.

 

Málið er (hlusta)
Málið er
er spjallþáttur í umsjón Viktoríu Hermannsdóttur. Í þættinum er rætt við fólk sem hefur upplifað ýmsa áhugaverða hluti. Sagðar eru sögur af fólki sem er kannski ekki á allra vörum en hlustendur hafa án efa áhuga á að heyra meira um. Þáttarstjórnandinn Viktoría fær til sín góða gesti og ræðir lífshlaup þeirra, sögur og áföll. Rætt hefur verið við Aron Leví Beck sem uppgötvaði rétt faðerni sitt átján ára gamall, íslenskar vændiskonur, fanga og eiturlyfjafíkla. Þættirnir eru hispurslausir, einlægir og fallegir. Hægt er að hlusta á Málið er í spilara RÚV, í hlaðvarpsappinu og á Spotify.

 

 

Grínland (hlusta)
Í Grínlandi er rætt við íslenska grínista og gamanið rætt í þaula. Þættirnir eru í umsjá Þórðar Helga Þórðarssonar og hefur hann fengið til sín marga góða gesti sem allir eiga það sameiginlegt að vera þjóðþekktir grínarar. Þórður ræðir við grínistana um lífið, ástina, uppvaxtarárin og hvernig það varð svo úr að fólk sóttist í grínið. Skemmtilegustu gestirnir eru m.a. Laddi, Saga Garðars, Ari Eldjárn og Anna Svava. Hægt er að hlusta á Grínland á vefspilara RÚV, í hlaðvarpsappinu og á Spotify.

Normið (hlusta)
Þær Eva María og Sylvía sjá um hlaðvarpið Normið en þar eru tekin fyrir ýmis andleg málefni og rætt við fólk sem storkar norminu á einn eða annan hátt. Stöllurnar fá til sín góða viðmælendur í hvert skiptið og ræða allt milli himins og jarðar! Gestir þeirra hafa ekki verið af verri endanum en Sigga Dögg, Óli Stef, Alda Karen og fleiri góðir spekingar hafa setið fyrir svörum í Norminu. Normið er skemmtilegur og fróðlegur spjallþáttur um mannlegt eðli og er hver þáttur innblásandi og heilandi. Hægt er að hlusta á Normið í hlaðvarpsappinu, á heimasíðu hlaðvarpsins og á Spotify.

 

Þegar ég verð stór (hlusta)
Í þættinum fá þáttastjórnendurnir Vaka Njálsdóttir og Vala Rún Magnúsdóttir í heimsókn til sín skeleggar konur og spyrja þær „hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?”. Stelpunum fannst of lítið um konur í fjölmiðlum og vildu tileinka heilt hlaðvarp nútímakonum og merkilegum afrekum þeirra. Gestir stelpnanna eru ekki af verri endanum en ekki ómerkilegri konur en frú Vigdís Finnbogadóttir, Áslaug Arna þingkona, Hrefna Sætran og Yrsa Sigurðardóttir. Þegar ég verð stór er hlaðvarp sem alvöru kvenskörungar mega ekki missa af, enda margt stórmerkilegt sem viðmælendur hafa að segja. Hlusta má á Þegar ég verð stór á Útvarpi 101 á miðvikudagskvöldum kl.20:00 en einnig er hægt að finna hlaðvarpið í appinu og á Spotify.

Önnur hlaðvörp sem komu til greina voru m.a. 

Já OK (hlusta)

Slaygðu (hlusta)

Þarf alltaf að vera grín (hlusta)

Blóði drifin byggingarlist (hlusta)

Bara við (hlusta)

Sigga Dögg Sexoligist (hlusta)

Icetralia (hlusta)

Þá er ykkur lesendum ekkert að vanbúnaði og af nógu að taka í íslenska hlaðvarpsgeiranum.

Hvað er uppáhalds hlaðvarpið þitt? Sendu okkur línu á Twitter @nutiminn!

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing