Auglýsing

Kylie Jenner sætir gagnrýni fyrir óviðeigandi afmælisveislu

Kylie Jenner þarf varla að kynna fyrir lesendum en hún er milljarðamæringur, snyrtivörugúrú og yngsta Kardashian-Jenner systkinið. Kylie er vön ýmisskonar gagnrýni en netheimar vestanhafs loga vegna óviðeigandi afmælisveislu sem Kylie hélt fyrir vinkonu sína á dögunum.

Kylie er þekkt fyrir að halda stórkostlegar þema-veislur við öll tilefni. Í eins árs afmæli dóttur hennar var þemað #Stormiworld, eftir rappplötu föður hennar Astroworld. Aðalatriði veislunnar var stærðarinnar upplásið andlit Stormi og er greinilegt að Kylie sparaði ekki krónu við veisluhöldin.

Þegar unnusti hennar og barnsfaðir, rapparinn Travis Scott varð 28 ára hélt Kylie stórfenglega bensínstöðvarveislu fyrir sinn heittelskaða. Já, þið lásuð það rétt – þemað var bensínstöð.

Nýjasta veislan var skipulögð af Kylie sjálfri fyrir vinkonu hennar og Instagram-stjörnuna Stassie Karanikolaou. Þemað var ekki í krúttlegri kantinum en veislan var mótuð eftir sjónvarpsþáttaröð Hulu, Handmaid’s Tale. Þáttaröðin er byggð á samnefndri bók Margaret Atwood sem kom út árið 1985 og gerist í dystópískri fjarlægð þar sem Bandaríkin eru orðin fasistaríkinu Gilead og konur njóta ekki lengur mannréttinda.

Í myndböndum á Instagram og Snapchat-reikningi Kylie sjást hún og aðrar vinkonur hennar, meðal annars fyrirsætan Sofia Richie klæða sig upp sem „handmaids“ eða þernur en hlutverk þernanna er að ganga með, fæða og ala börn nauðgara sinna. Þernurnar eru sérvaldar fyrir frjósemi sína og eru hnepptar í þrældóm, þeim er ítrekað nauðgað og þær misnotaðar. Brjóti þernurnar af sér eru þær umsvifalaust myrtar og lík þeirra hengd upp á almannafæri til að kúga íbúa Gilead til hlýðni.

Hljómar eins og stórgott afmæli!

Greinilegt að ekkert var til sparað en sést á myndböndunum að mikill metnaður hefur verið lagður í afmælisveisluna. Gestirnir eru klæddir upp sem þernur, starfsfólk og þjónar veislunnar sem þrælahaldarar og skjaldamerki fasistaríkisins Gilead má sjá bregða fyrir.

Bókin er vinsælasta verk Atwood og ein þekktasta skáldsaga nútímabókmennta. Þáttaröð Hulu hefur sömuleiðis verið lofuð fyrir mennigarlegt vægi sitt, sérstaklega í núverand pólitísku landslagi Bandaríkjanna en mörg fylki hafa sett á ný, ströng lög um þungunarrof og æxlunarrétt kvenna. Mikill hiti er í bandarísku samfélagi um þessar mundir vegna þungunarrofalöggjafarinnar í fylkjunum sem um ræðir enda er forræðishyggjan, fáfræðin og fasisminn þar allsráðandi. Í Alabama hafa þungunarrof t.a.m. verið bönnuð eftir að fyrsti hjartsláttur heyrist í kringum 6 vikurnar, áður en margar konur hafa yfirleitt gert sér grein fyrir því að þær eru þungaðar.

Konur hafa í auknum mæli klæðst upp sem þernurnar úr sögunni í samstöðu- og mótmælagöngum í þeim tilgangi að vekja athygli á líkindum Bandaríkjanna undir stjórn Trump og fasistaríkisins Gilead. Margar þekktustu stjörnur Hollywood hafa talað opinberlega gegn löggjöfinni og fordæmt hana, m.a. Kylie sjálf. Stjörnurnar lýsa yfir reiði sinni og hræðslu, enda sé með löggjöfinni verið að neyða konur til þess að eignast börn sem þær vilja ekki, börn sem eru veik og eiga litla vona á heilbrigðu lífi og einnig börn nauðgara sinna.

Alvarleiki og boðskapur sögunnar virðist hinsvegar ekki hafa náð til Kylie og vinkvenna hennar sem stilla sér upp með stút á munn í þernuklæðnaði.

Kylie Jenner (left) in her Handmaid's Tale outfit.
Mynd fengin af Instagram.

 

Netverjum er auðsýnilega ekki skemmt og hefur gagnrýnistvítum rignt yfir Kylie og félaga:

Mörgum aðdáendum Kylie þykir þetta einstaklega furðulegt háttalag, sérstaklega í ljósi þess að sjálf hefur Kylie talað opinberlega gegn löggjöfinni. Þá létu hún og unnusti hennar allan ágóða af varningssölu Astroworld-tónleikaferðalagsins renna óskiptan til Planned Parenthood-samtakanna í Bandaríkjunum.

Hvorki Kylie né afmælisbarnið Stassie hafa svarað gagnrýninni á þemað, sem án efa hefði verið meira viðeigandi í hrekkjavökupartýi en í afmælisveislu.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing