Senol Gunes, þjálfari karlalandsliðs Tyrklands í fótbolta, neitaði að taka í hendina á Jóni Daða Böðvarssyni eftir landsleik Tyrkja og Íslands á Laugardalsvelli í gær. Tyrkir voru ósáttir fyrir leik vegna atviks sem átti sér stað við komuna til landsins en Jón Daði segir að Íslendingar hafi ekki sýnt Tyrkjum neina óvirðingu. Þetta kemur fram á vef mbl.
Sjá einnig: Örskýring: Hvers vegna eru Tyrkir brjálaðir?
Jón Daði var ánægður eftir leik en hann stóð sig frábærlega í leiknum þrátt fyrir að hafa ekki spilað reglulega í vetur vegna meiðsla.
„Maður var farinn að sakna þess að spila fótbolta á nýjan leik, hvað þá á Laugardalsvelli, og þetta var þess vegna mjög sætur sigur. Maður rennur aðeins á adrenalíninu í svona leikjum enda stemningin alltaf frábær en ég var farinn að finna fyrir smá þreytu á 60. mínútu en hefði eflaust getað þjösnast í gegnum allan leikinn en það var klókt að taka mig af velli þarna í seinni hálfleik,“ sagði hann eftir leik.
Jón Daði var einn af þeim sem fékk hótanir frá tyrkneskum stuðningsmönnum fyrir leikinn en hann kippti sér ekki upp við það.
„Ég fékk helling af hótunum á Twitter en ég var lítið að pæla í því og nennti ekki einu sinni að skoða þessi skilaboð sem ég fékk. Þessi maður með burstann var ekki einu sinni Íslendingur þannig að við sýndum þeim ekkert nema virðingu, allan tímann. Ég reyndi að taka í höndina á þjálfara Tyrkja eftir leik en hann neitaði að taka í höndina á mér eftir leik. Maður reynir að sýna eins mikla virðingu og hægt er í þessu sporti og ef maður fær það ekki til baka þá er það bara þannig,“ sagði Jón Daði í samtali við mbl.is.