Landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, Hannes Þór Halldórsson, hefur verið talsvert í umræðunni eftir að hann missti af leik með liði sínu Val vegna meiðsla. Hannes skellti sér í brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar á Ítalíu á sama tíma og einhverjir efuðust um hversu alvarleg meiðslin væru í kjölfarið.
„Mér finnst helvíti ódýrt að það sé reynt að gera þessa stuttu ferð mína til Ítalíu tortryggilega með öllum mögulegum aðferðum og æsifréttamennsku,“ sagði Hannes í mögnuðu viðtali eftir leik Vals og KR í Pepsi Max deildinni í gær.
Einhverjir sparkspekingar hafa haldið því fram að það væri ákvæði í samningi Hannesar og Vals um að hann fengi að fara í brúðkaup Gylfa. Hannes segir að allt slíkt tal eigi ekki rétt á sér og að hann hafi einfaldlega verið meiddur og fullt af læknum og sjúkraþjálfurum geti staðfest það.
„Ég taldi mig hafa hingað til á mínum ferli sýnt að það þurfi ekki að efast um fagmennsku mína og trygglyndi gagvart þeim félögum sem ég spila fyrir. Ég hef aldrei skorast undan skyldu minni sem fótboltamaður og þvert á móti hef ég lagt á mig aukalega til að vera í eins góðu standi og ég get fyrir þau lið sem ég hef spilað fyrir. Þannig hef ég litið á fótbolta og það mun ekki breytast.“
Hannes segir umræðuna í kringum málið vega að æru hans og að hún sé einfaldlega óásættanlegt. Hann skilji alveg útaf eðli meiðslanna og tímasetningu að þetta sé á milli tannanna á fólki. Brúðkaupið hafi verið stór og mikill viðburður og mikið í umræðunni. Hann viti hinsvegar staðreyndirnar í málinu og að það svíði þegar umræðan sé keyrð áfram á innihaldslausum fullyrðingum sem hafa enga stoð í raunveruleikanum.
Viðtalið við Hannes má sjá í heild sinni á vef Fótbolta.net með því að smella hér.