Sálfræðingurinn Pétur Tyrfingsson skrifaði þessa færslu á Facebook þar sem að hann talar um mikilvægi þess að við hlustum á sérfræðinga okkar í líf- og sálfræðivísindum þegar kemur að „klukkumálinu“.
Það að hlusta á hagsmunaaðila fyrirtækjanna þegar kemur að lýðheilsu mannanna finnst honum stórfurðulegt og spyr því: „Hvern fjandann var þessi drengur frá SA að þvælast í Kastljósi?“:
Söguleg reynsla kennir okkur að aldrei skuli hafa kapítalista með í ráðum þegar lýðheilsa á í hlut. 10 og 8 stunda vinnudag þurfti að berjast fyrir og ekki voru þeir nú hrifnir af vökulögunum. Kapítalistum og fyrirtækjum þeirra er andskotans sama um lýðheilsu mannanna og náttúrulegt umhverfi okkar. Af þeirri einföldu ástæðu að þar ræður almenn velferð ekki ferðinni heldur gróði einstakra fyrirtækja. Og þá er mér spurn: Hvern fjandann var þessi drengur frá SA að þvælast í Kastljósi til að tala um svefn og misræmið milli hinnar félagslegu klukku og gangs himintunglanna? Þeir sem þjóðin á að hlusta á hér er fólkið sem stundar líf- og sálfræðivísindi í háskólunum og starfsfólk í heilbrigðis- og skólakerfinu. Þarna eru ekki „hagsmunaaðilar“ á ferðinni. Umræða hagsmunaaðila kemur okkur ekkert við – það er bara umræða þeirra á milli um það hvernig þeir geta sem best lagað sig að því sem verður ákveðið samkvæmt „bestu manna yfirsýn“. Ég frábið mér þessa sterku tilhneigingu að draga fram einhvern fjárans gróðapung til að jarma í fávisku ofan í fræði- og vísindamenn sem hafa fengið það hlutverk að vaka yfir velferð þjóðarinnar. Á þetta uppistand í boði Heimdellingsins í Kastljósi að vera oft í mánuði? Um daginn var fulltrúi Samtaka atvinnurekenda að gjamma ofan í helsta sérfræðing þjóðarinnar í bakteríum sem ónæmar eru fyrir sýklalyfjum og nú var fulltrúi Samtaka atvinnulífsins hafðu við borðið án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut að segja um „klkukkumálið“.