„Ég hleyp mikið og hef gert í langan tíma, en það er orðið soldið langt síðan ég hljóp hálft maraþon síðast,” segir Greta Salóme Stefánsdóttir söngkona. Greta Salóme ætlar að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka fyrir Styrktarsjóð gigtveikra barna.
„Systir mín, Sunna, greindist með slæma liðagigt þegar hún var 16 ára en hún er 29 ára í dag. Hún kvartar aldrei og er algjör nagli þrátt fyrir að vera oft kvalin vegna sjúkdómsins,” segir Greta Salóme og bætir við að gigt sé einn af þessum sjúkdómum sem geti verið mjög falinn: „Gigt er í fjölskyldunni minni og hefur lagst á aðra fjölskyldumeðlimi á öllum aldri svo ég hef séð hvað sjúkdómurinn getur skert lífsgæði fólks. Þess vegna hleyp ég fyrir systur mína og önnur gigtveik börn.”
Greta hefur ekki áður tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu vegna anna: „Ég er á svo miklum ferðalögum á sumrin og hef oft verið að skemmta á þessum tíma en í ár ákvað ég að taka daginn í hlaupið og gera þetta almennilega. Ég er í bootcamp þrisvar í viku og hleyp fjórum sinnum í viku svo ég er tilbúin í þetta. Ég ákvað samt að stækka áskorunina aðeins og taka sykurlaust sumar en ég fæ mér nú samt ís eftir hlaupið!” segir Greta og skellir upp úr.
Greta verður bókstaflega á ferð og flugi í sumar en auk þess að æfa fyrir maraþonið og skemmta hér á landi siglir hún af stað með Disney Magic skemmtiferðaskipinu í næstu viku og mun sigla um Evrópu.
Hægt er að fylgjast með undirbúningi Gretu á Snapchat: gretasalome. HÉR má svo heita á Gretu Salóme: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 19. ágúst n.k. Allar nánari upplýsingar um
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 19. ágúst n.k. Allar nánari upplýsingar um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka má finna á heimasíðu hlaupsins: www.marathon.is/reykjavikurmaraton
121 góðgerðafélög taka þátt í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2017. Málefnin sem hægt er að hlaupa fyrir í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka eru fjölmörg. Finnir þú ekki félagið sem stendur þér næst getur þú bent því á að skrá sig til þátttöku með því að senda póst á aheit@marathon.is.