Sunna Rannveig Davíðsdóttir bardagakona er á uppleið á sínum ferli í blönduðum bardagalistum. Hún er sannur innblástur í sínu sporti og lætur ekkert stoppa sig á leiðinni á toppinn.
Við hjá Menn.is tókum hana í stutt viðtal um ferilinn, æfingarnar og lífið sjálft.
Hvernig hafa æfingar verið undanfarið?
Núna er dálítið liðið síðan ég barðist seinast. Það var í lok mars. Strax að bardaga loknum minnka ég aðeins álagið og æfi meira frjálst en ég er bara þannig gerð að ég þarf á einhverri hreyfingu að halda á hverjum degi, alla daga ársins. Keppnisliðið er nýkomið úr sumarfríi og æfingar byrjaðar á fullum krafti aftur og það má alveg segja að það sé veisla þessa dagana. Margir góðir vinir og æfingafélagar sem eru hér á landinu núna að æfa með okkur.
Gunnar Nelson er að berjast kvöldið á eftir mér 16. júlí í Glasgow og sama kvöld berst heimakonan Jo Jo Calderwood en hún er stödd hér á landi ásamt Jinh Yu Frey sem er í Invicta eins og ég. Þess má geta að Jihn hefur barist mér við hlið í bæði skiptin sem ég hef barist fyrir Invicta og nú endurtökum við leikinn í þriðja sinn þann 15. júlí. Vinir okkar frá Írlandi hafa verið að láta sjá sig og það eru fleiri á leiðinni. Það er algjör draumur að fá svona góða æfingafélaga til okkar og geta verið hér heima með gott “camp”. Ég finn að hungrið er alveg komið yfir mig og ég get ekki beðið eftir að komast aftur í búrið.
Hvernig er tilfinningin fyrir framhaldinu?
Mjög góð. Ég er búin með tvo atvinnubardaga og er búin að vinna þá báða svo það er eitthvað að segja mér að ég sé á réttri leið. Þriðji bardaginn er handan við hornið og ég er algjörlega tilbúin í hann. Ég elska allt við ferðalagið, fólkið, lífsstílinn, æfingarnar, tárin, blóðið, svitann, útrásina, undirbúninginn, árangurinn, gleðina og allt hitt. Líkaminn þekkir ferlið vel og veit þegar það er komin tími til þess að gera sig klárann í bardaga. Ég geri það sem ég elska á hverjum degi og er ótrúlega þakklát fyrir það og öllum sem hafa tekið þátt í að hjálpa mér við að láta þennan draum rætast.
Hver er mantran þín í lífinu?
“Balance in everything”. Jafnvægi í öllu. Ég lét flúra þennan frasa á höndina á mér í skiptum fyrir lopapeysu á sínum tíma hjá Fjölni tattoo og ég elska það. Jafnvægi er mikilvægt bæði innra með manni og allt um kring. Það er eitthvað sem allir ættu að tileinka sér og leita að í lífinu.
Mikilvægast í mataræðinu?
Jafnvægi. Ég hef tileinkað mér hollan lífsstíl í fæðuvali. Ég leyfi mér þó af og til að “svindla” en ég þarf að vinna mér inn fyrir því og það verður því mun ljúfara þegar svo ber undir. Lífið verður svo leiðinlegt ef maður má ekki fá sér ís eða Nutella af og til en það verður enginn langlífur eða hamingjusamur á því að borða bara það tvennt.
Ég er alltaf að kynnast líkamanum mínum betur og er orðin meðvituð um það hvað er að virka vel fyrir mig og hvað mér ber að forðast og hvenær. Mikilvægast af öllu er að drekka nóg vatn.
Hvaða græjur notarðu til að halda líkamanum góðum?
Það hafa nokkrir “game changerar” orðið fastur liður í lífi mínu undangengna mánuðina – og hef ég verið nokkuð fastur viðskiptavinur uppi í Eirberg.
Sem dæmi má nefna Shakti nálastungudýnan sem er græja sem ég veit hreinlega ekki hvernig ég gat lifað án. Algjörlega frábær græja sem hefur þvílíkt jákvæð áhrif á blóðflæðið.
Ég nota svo rumble bandvefsrúllurnar sem ég elska að hata á hverjum einasta degi. Að rúlla djúpt inn í helstu vöðva líka með nuddboltanum er algjörlega nauðsynlegt til að örva blóðflæðið, losa um bólgur og spennu, flýta fyrir endurheimt, koma í veg fyrir meiðsli og gera vöðvana klára fyrir átök.
Nýlega byrjaði ég svo að nota TomTom úrin. Með þeim get ég sett mér betur markmið um hversu langt ég hleyp eða geng, hversu hátt ég keyri púlsinn o.s.frv. Það er virkilega gaman og gagnlegt að geta fengið allar þessar upplýsingar og geta sett mér markmið út frá þeim.
Hvað segirðu við þær stelpur sem vilja feta í þín fótspor?
Ef ég get þetta þá getið þið þetta. Trúið á sjálfar ykkur og eltið draumana ykkar. Ekki láta neinn segja ykkur að þið getið þetta ekki. Þetta er ekki auðvelt og á ekki að vera auðvelt. En þetta er þess virði.
Við þökkum Sunnu kærlega fyrir þetta viðtal – Sönn fyrirmynd – og við munum svo sannarlega styðja við bakið á hana í næstu bardögum!