Hljómsveitin Atomstation sendi nýverið frá sér ansi skrautlegt myndband við nýtt lag af væntanlegri breiðskífu sinni BASH. Lagið nefnist When in Rome og er svokallað partírokk samkvæmt meðlimum sveitarinnar. Í umræddu myndbandi, sem leikstýrt er af Marteini Þórssyni kvikmyndaleikstjóra, má sjá hljómsveitina klædda kvenmannsfatnaði ferðast um á gömlum traktor á leið sinni á Pönksafn Íslands við Bankastræti 0 í Reykjavík. Þar er svo leikið af mikilli gleði fyrir dragdrottningar af ýmsum gerðum og mikið stuð.
„Texti lagsins fjallar um hið svokallaða „all-in“ (eða Allann) við skemmtanaiðkun – mómentið þegar maður byrjar að finna á sér og veit að maður mun ekki stoppa, eins og maður sé andsetinn … eins og djöfullinn sitji um mann, og þegar maður er kominn með annan fótinn yfir velsæmisstrikið… þá er bara eins gott að fara ALLA leið! Textinn varð einmitt til í upptökuferðinni í LA í vor. Það virðist vera lenska að um leið og maður er kominn í annað póstnúmer gildi aðrar reglur. Í LA vorum við langt að heiman og hey, … When in Rome. „ segir Gummi söngvari Atomstation.
Atomstation mun ásamt 8 öðrum hljómsveitum, tveimur sálfræðingum og fleirum, koma fram á viðburðinum „Stopp! Hugvekja/Tónleikar um geðheilbrigði“ á Gauknum milli klukkan 19:30 og 01:00 í kvöld. Markmið viðburðarins er að stöðva fáfræði og fordóma gagnvart geðsjúkdómum og stuðla að því að einstaklingar sem þjást af þeim fái þá hjálp sem þeir eiga skilið. Skipuleggjendur tónleikanna eru þær Bylgja Guðjónsdóttir og Elín Jósepsdóttir.
„Þetta er frábært framtak sem við tengjumst með stolti. Árið hefur verið sérstaklega erfitt til þessa fyrir rokksenuna og við höfum þurft að horfa á eftir ömurlega mörgum falla fyrir eigin hendi hér heima og einnig erlendis. Við þurfum að efla alla umræðu um geðheilbrigðismál til að mæta fordómum og hjálpast að við finna þessum málum farsælli farveg.“
Gaukurinn opnar klukkan 19:00 og tekið verður við frjálsum framlöguð við innganginn en að örðu leyti er aðgangur ókeypis.
Hér má svo sjá myndband Atomstation við lagið When in Rome: