Við birtum pistil nýlega á Menn.is – þar sem íslenskur strákur birti reynslu sína af sambandi við stúlku sem var of mikið í símanum. (Sjá HÉR). Við fengum senda þessa grein frá stúlku sem hafði sitt að segja.
Ég las pistil hérna á Menn.is þar sem einhver gæi var að kvarta yfir fyrrverandi kærustunni sinni af því hún var svo mikið á Instagram. Það hefði hreinlega eyðilagt sambandið. Hann tók fram að líklega væri hann bara bitur. Til hamingju. Það er líklega það eina sem var satt í þessum ranti. Og nota bene ég er ekki bitur, segjum bara hlutian eins og þeir eru.
Jú sumar stelpur eyða tíma á Instagram. Sjokker. En gera strákar sér til dæmis einhverja grein fyrir þeim tíma sem þeir félagarnir eyða í það að fylgjast með fótbolta? Fyrir utan allt netrápið sem því fylgir, þarf að taka bæði allar helgar og kvöld í miðri viku til að horfa á leiki. „Það er sko meistaradeildin í kvöld“.
Þrír tímar lágmark sem það tekur að horfa á leik og undantekningalaust fylgdi bjórsull. Fyrrverandi var ekki á Instagram en samt gat hann eytt hellingstíma fyrir framan skjáinn. Þar að auki búinn að sósa sig af áfengi á meðan. Ég þarf þó allavega ekki að vera að hella í mig bjór ef ég pósta einhverju á Instagram. Og það tekur heldur ekki þrjá tíma.
Snúum dæminu við. Ef ég færi sirka tvisvar í viku í 3-4 klukkutíma að pósta myndum á Instagram og kæmi síðan heim blindfull, þá mætti alveg kalla mig athyglissjúkan alkahólista. Ég hins vegar get tekið mynd, valið filter og póstað – á undir fimm mínútum. Merkilegt nokk þá er ég alveg edrú eftir það.
Ég get líka alveg talað um annað áhugamál sem ég hef séð hjá strákum, sem eyðileggja sambönd, þar sem þeir sitja fastir við tölvuna í skjóli nætur. Einmitt að skoða myndir af stelpum. Reyndar ekki á Instagram. Og reyndar ekki af kærustunum sínum.
En nei nei. Við stelpur erum svo sjálfhverfar að við eyðileggjum sambönd með því að vera á Instagram. Strákar missa sig ekkert í símanum. Alveg lausir við það. Vilja bara að sambandið gangi upp.
Ég býð þessum herramanni sem skrifaði pistilinn hér að taka sömu ráðum og hann gaf sjálfur. Hvernig væri þegar honum dettur næst í hug að eltast við fótbolta, bjór og „netskoðun seint um kvöld“ að slagga og liffa og njódda í staðinn fyrir að stressast og drekka og þjóta.
Alveg spurning nefnilega að líta í eigin barm áður en maður gagnrýnir aðra …