Í draumkenndum framtíðarbíómyndum og þáttum þá höfum við séð hvernig tæknin umbreytir öllu og gerir starfsfólk algjörlega óþarft. En hingað til hefur þetta ekki verið raunin, tæknin í raun og veru ekki alveg komin þangað…fyrr en nú!
Amazon var að opna fyrstu sjálfvirku matvöruverslunina sína – Amazon Go – og í henni eru engir búðarkassar, ekkert fólk til að ganga frá kaupum þínum, engin manneskja sem sér um áfyllingar…þetta er allt rafrænt!
Málið er einfalt – þú tengist Amazon Go kerfinu í gegnum símann þinn og þegar þú kemur í verslunina skannar þú þig inn með símanum þínum. Þú tekur saman hvað þú vilt og svo labbar þú út – þarft ekkert að skanna vörurnar, þetta gerist allt að sjálfu sér. Þetta þýðir að það myndast ekki biðraðir við neina kassa og þú getur í alvörunni, ekkert grín, bara labbað út þegar þú ert búin/-n að versla, eins og þið sjáið í myndbandinu frá þeim:
Amazon Go búðin er fyrsta sinnar tegundar og hún er staðsett í Seattle í Bandaríkjunum. Fyrirtækið hafði að sjálfsögðu prufukeyrt tæknina áður en hún var opnuð almenningi og starfsmenn Amazon höfðu notað verslunina til að kaupa í matinn í 14 mánuði áður en verslunin var opnuð.
Nú þurfum við bara að biðja Amazon um svona verslun hér, eða heyra í Nettó, Bónus, Krónunni, Costco, o.fl. og sjá hvort að það sé ekki hægt að redda þessu hér á Íslandi!