Auglýsing

Bubbi Morthens er HRÆDDUR um börnin sín og konu – Fullir ökumenn í Kjósinni nánast daglega!

Bubbi Morthens skrifaði þessa færslu á Facebook um ástandið í Kjósinni þegar kemur að fullum ökumönnum – sem er víst daglegt brauð á þeim slóðum. 

Færslan hans hefur fengið fólk til að skoða ekki bara ástandið þar, heldur til að skoða meðvirkni í heild sinni og hversu hættuleg hún getur verið.


Meðvirkni á vegunum.

Meðvirkni er sjúkdómur sem leggst á fólk í öllum stéttum. Hún finnst allstaðar í pólitík og á heimilum drykkjumannsins og dópistans. Við erum meðvirk með börnum okkar, foreldrum, vini sem hefur brotið af sér, og við réttlætum allan andskotann fyrir okkur því það er of sárt að þurfa að spyrna við fótum og segja hingað og ekki lengra.

Meðvirkni birtist í mörgum formum. Oftast er hún alls ekki ásættanleg. Ég hef verið meðvirkur í svo mörgu að það hálfa væri nóg. Ég bý í litlu samfélagi þar sem kyrrð og fegurð er yfir og allt um kring. Þar sem ég bý er vegur þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar. Margir virða þær takmarkanir en alltof margir virða þær ekki. Ég er með þrjú börn í heimili sem þurfa oft að fara yfir þennan veg en á honum er ein gangbraut en engir gangstígar. Það er því ekki þorandi að leyfa barni að vera á hjóli úti á vegi.

Við vitum hversu erfitt það getur verið að segja hlutina. Horfa framan í einhvern og segja honum sannleikann. Og hér í sveitinni minni erum við að glíma við það.
Hér í Kjósinni er hættuleg meðvirkni í gangi. Hún er sú að alþekkt er að hér um slóðir aka ákveðnir einstaklingar nánast daglega drukknir um vegina. Í sveitinni tala allir um þetta og segja: Við verðum að gera eitthvað í þessu. Og sumir hafa sagt: Ja, við höfum talað við hann þennan og beðið hann að vera ekki að keyra drukkinn. En það hefur ekki dugað.

Nú spyr kannski einhver hvort ég vilji ekki nefna þessa menn. En, nei, það vil ég ekki – og ég veit að það að gera það ekki leiðir ekki til þess að allir einstaklingar í Kjósinni liggi undir grun. Ég get heldur ekki setið fyrir þeim. Á kjördag hitti ég einn slompaðan komandi á bílnum til að kjósa. Og í meðvirkni minni lét ég það ógert að gera eitthvað í málinu. Og svo sat ég heima og bölvaði sjálfum mér fyrir kjarkleysið.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er sú að ég óttast að mæta þessum mönnum með börnin mín í bílnum. Ég óttast um konuna mína á leið í vinnu. Nógu er nú vegurinn í bæinn hættulegur þó svo þetta bætist ekki ofaná. Ég óttast að einn daginn fáum við þá frétt að eitthvað hræðilegt hafi gerst vegna þess að enginn stoppaði þessa menn. Kannski er ég að vona að ættingjar þeirra lesi þetta og stöðvi þá. Kannski er ég að vona að allir sem lesa þetta og vita um fólk sem sest drukkið eða undir áhrifum undir stýri stöðvi viðkomandi. Ég get bara ekki lengur látið nægja að tala um þetta í eldhúsum í sveitinni. En út af því hvað þetta er lítið samfélag hér þá eru allir að drepast úr meðvirkni og á endanum er sá möguleiki að einhver slasist eða verði drepinn vegna þess að við erum of náin í þessu litla samfélagi.

Ég skrifa þetta af ást og kærleika og með vinsemd og virðingu fyrir sveitungum mínum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing