Hann Stefán, sem er með Facebook síðuna ‘Leikmaður les Biblíuna’, setti inn færslu þar sem hann segir frá eigin reynslu af ferð til tannlæknis sem útlistar af hverju við Íslendingar erum í raun og veru hrædd við að fara til tannlæknis.
Það er nefnilega yfirleitt ekki líkamlegi sársaukinn sem er raunverulega vandamálið hjá okkur.
Það er oft gert grín af því að fólk sé hrætt við tannlækna, og hræðslan er skiljanleg — það getur verið vont að fara til tannlæknis. En ég held að það sé ekki nógu oft talað um raunverulegu ástæðuna fyrir því að fullorðið fólk, eða stór partur af fullorðnu fólki, er hrætt við að fara til tannlæknis. Hugsanlega því að undirmeðvitundin setur hræðsluna við sársauka yfir hræðsluna við „ég hef ekki hugmynd um hvað það mun kosta.“
Það eru handfylli af tannlæknum með verðskrár á vefsíðum þeirra, en venjulegt fólk getur lítið lesið úr þeim — sérstaklega þar sem að vandamálið er kannski ekki bara lítil hola eða hvaðeina.
Ástæðan fyrir því að ég er búin að vera að hugsa um þetta er því að ég fór til tannlæknis. Ég fékk tannpínu. Hef ekki fengið tannpínu í áratugi, og fer í raun bara til tannlæknis þegar gamlar fyllingar gefa sig. En þarna var ég með tannpínu. Ég gerði ráð fyrir að þetta mundi kosta 20-30 þús kr. Enda var það venjan við að skipta um fyllingu. Tannlæknirinn skoðaði jaxlinn og sagði eitthvað um tannrótarfyllingu–svo fann ég mesta sársauka sem ég hef fundið er borinn fór í taug.
Svo var hætt að bora og ég andaði léttar. Þá fékk ég að vita að þetta var fyrsta skrefið; næst mundi ég fara til sérfræðings, svo mundi ég koma aftur og fá alvöru fyllingu.
Okay, ég borgaði 30+ fyrir þetta og beið eftir tíma hjá sérfræðingi.
Svo fór ég til sérfræðings, þar fékk ég að vita að þetta var skref 1 af 2 hjá honum. Borgaði 60+ og ákvað að spyrja hvað næsta heimsókn mundi kosta. Mátti búast við um 40 þús þá. Okay, frábært.
Núna var ég búin að borga um 100 þúsund, sem ég átti ekki til, fyrir þetta svo ég fór að googla. Tannrótarfylling í jaxli þarf víst oftast krónu yfir tönnina svo hún brotni ekki. Króna kostar eitthvað undir 200 þús.
Svo ég sá fram fyrir að eftir áramót mundi ég þurfa að borga ca 250-300 þús í viðbót.
Það mun samt ekki gerast, því að viku fyrir jól þá fékk ég svakalegan verk í jaxlinn. Kom í ljós að jaxlinn–sem var búið að hreinsa allar taugar og æðar úr–brotnaði í tvennt.
Ég fæ tíma hjá tannlækninum og það þarf bara að taka tönnina. Þetta gerist oft víst þegar þetta er í gangi. En tannlæknirinn tekur ekki tönnina, þarf að fara til annars sérfræðings. Fæ tíma og tönnin er tekin. 40+. Mér var bent á að panta tíma strax eftir 3 mánuði, þá get ég fengið gervitönn; hún kostar bara eitthvað yfir 200 þús. Já, ég hef svo sannarlega efni á því, takk.
Svo núna er ég búin að eyða ca 150 þúsund í tönn sem er einhverstaðar á sorphaug í molum.
Ég er ekki að kenna neinum um að tönnin brotnaði, það gerist víst en á engum tímapunkti var ég spurður hvort ég hefði yfir höfuð efni á því að eyða hátt í 400 þúsund krónur í jaxl. Mér var aldrei sagt að það væri hætta á að ég væri að henda pening í ruslið. Fyrir 150 þús hefði ég getað keypt flugmiða til útlanda, fengið nýja tönn þar og skipt um gamlar fyllingar líklegast í leiðinni.
Ég náði að redda að borga þetta (takk Netgíró en hversu margir á Íslandi gætu ekki reddað því og bara fara ekki til tannlæknis? Hversu margir eru með tannpínu núna, sem getur valdið sýkingu–og jafnvel dauða–en fara ekki því að kostnaðurinn getur bókstaflega fokkað upp öllu lífi þeirra?
Hugsanlega er ég líka að hugsa um þetta því að ég hef nýja reynslu líka af öðru heilsuveseni (desember var vondur mánuður). Ég fékk flensu, er hálfviti svo ég mætti alltaf í vinnu, svo það leið yfir mig í vinnunni. Fór upp á heilsugæslu til hjúkrunarfræðings, hún sótti lækni. Var hjá þeim í klukkutíma í hjartalínuriti og öðrum testum. Var sendur upp á spítala. Talaði við lækni, fleiri en einn hjúkrunarfræðing. Allskonar test. 5 tímar ca þar sem eitthvað var í gangi. (Blóðprufan sýndi að ég var með slæma sýkingu, fékk ógeðslega mikið af sýklalyfjum og er ekki að deyja).
Fyrir alla þjónustuna og rannsóknirnar sem ég fékk frá 2 læknum og fullt af hjúkrunafræðingum, þá borgaði ég eitthvað undir 10 þúsund krónur.
Við heyrum hryllingssögur frá bandaríkjunum þar sem fólk þarf að borga offjár fyrir læknaþjónustu, en við gerum ekkert í því að sú læknaþjónusta sem við þurfum öll að nýta okkur er fáránlega dýr, og ég skil bara ekki af hverju.
Af hverju eru tennurnar eini partur af líkamanum sem að er ekki partur af hinni venjulegu læknastétt? Það er ekkert val að fara til tannlæknis, þú getur ekki verið virkur meðlimur í þjóðfélaginu ef að þú ert alltaf að deyja úr tannpínu.
Nú halda sumir kannski að ég sé að láta eins og tannlæknar eigi ekki að fá borgað fyrir vinnuna sína eða álíka rugl, en ætlar einhver að halda því fram að læknarnir sem sinntu mér eftir að leið yfir mig fái ekki borguð laun?
Það er til hlutur sem heitir Tannlæknavaktin. Ef að eitthvað kemur fyrir að kvöldi eða um helgi þá geturðu farið þangað. Þau rukka 33 þúsund króna auka álag.
Getiði ímyndað ykkur að handleggsbrotna á föstudagskvöldi og þurfa að borga 33 þúsund króna auka álag? Væri þá ekki eiginlega búið að ákveða að stór hluti af þjóðfélaginu mundi alltaf þurfa að bíða fram yfir helgi til að láta líta á handlegsbrotið?
Væri það ásættanlegt?