Facebook er vinsælasti samfélagsmiðillinn á Íslandi en heil 92 prósent þátttakenda í nýrri könnun MMR segjast nota miðilinn reglulega.
Snapchat er enn ansi vinsælt en 64 prósent landsmanna segjast nota forritið reglulega. Þá nota 61 prósent Youtube, 51 prósent Spotify og 50 prósent Instagram. Aðeins 2 prósent sögðust ekki nota neina samfélagsmiðla reglulega.
Miðlar á borð við Snapchat og Instagram voru nokkuð vinsælli hjá konum samanborið við karla á meðan Youtube virtist höfða betur til karla en kvenna. Regluleg notkun Snapchat, YouTube, Spotify og Instagram fór minnkandi með auknum aldri.
Nokkurn mun var að sjá á notkun vinsælustu samfélagsmiðlanna eftir stjórnmálaskoðunum. Af stuðningsfólki Flokks fólksins kváðust 98 prósent nota Facebook reglulega en einungis 21 prósent þeirra kváðust nota Spotify reglulega. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins reyndist hvað líklegast til að nota Snapchat reglulega og stuðningsfólk Framsóknar, Pírata og Miðflokksins reyndist líklegast til að nota Youtube reglulega. Af stuðningsfólki Viðreisnar kváðust 69 prósent nota Spotify reglulega og 61 prósent stuðningsfólks Pírata sögðust reglulegir notendur Instagram.
Könnunin var framkvæmd dagana 14. til 16. maí 2019 og var heildarfjöldi svarenda 978 einstaklingar, 18 ára og eldri.