Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Ísland, gagnrýnir skopmynd sem Helgi Sigurðsson gerði fyrir Morgunblaðið á Facebook síðu sinni. Myndin hefur verið umdeild en í gær vakti athygli þegar Steindór Jónsson, blaðamaður Stundarinnar gagnrýndi hana á Twitter.
Sjá einnig: Segir skopmyndateiknara Morgunblaðsins hafa náð nýjum hæðum af viðbjóði í dag
Ugla segir að myndin sé dæmi um áróður sem ali á ótta gagnvart trans fólki og réttinum þeirra. Hún segir mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvers vegna svona „húmor“ sé beinlínis hræðsluáróður frekar en merki um góða eða beitta kímnigáfu.
„Skopmyndin gefur í skyn að karlmenn muni nú bara arka í kvennaklefa í sundi eftir að hafa breytt kyni sínu í Þjóðskrá. Slíkt er ekki einungis ólíklegt, heldur hefur þetta ekki orðið að vandamáli í löndum sem að þegar leyfa fólki að breyta um kynskráningu á sambærilegan hátt. Að breyta um kyn í Þjóðskrá er til að mynda tímafrekt og dýrt, þó vissulega einfaldara nú en áður,“ skrifar hún.
Hún segir þessi rök þekkt stef hjá þeim sem beita sér gegn réttindum trans fólks og einnig á meðal hópa sem beita sér gegn annarskonar réttindabaráttu.
„Ef einhver kemur því inn í kvennaklefa og byrjar að hafa sér ósæmilega eða jafnvel áreitir aðra sundlaugagesti þá skiptir engu máli hver kynskráning þín er. Sömuleiðis er það ekki þannig að þú þurfir að sýna nein skilríki áður en þú stígur inn í klefa, þannig að ef það væri almennt vandamál að karlar væru að ryðjast inn í kvennaklefa, þá væri þeir þegar að því. Þessi lög skapa því enga hættu sem er ekki þegar til staðar.“
Að láta trans fólk gjalda fyrir það sem karlmenn myndu hugsanlega gera þrátt fyrir að ekki séu til nein fordæmi fyrir því viðheldur mjög sterku kynjakerfi í okkar samfélagi þar sem gjörðir karla—jafnvel hugsanlegar—virðast stjórna því hvernig okkar samfélag er uppbyggt.
Þá segir hún að fólk eins og Helgi búi yfir gríðarlegri ábyrgð sem einstaklingur sem gefur út efni fyrir almenning. Hann noti þessa ábyrgði í mjög hættulegan áróður sem byggir á illa upplýstum skoðunum hans.
„Hann og aðrir geta tönnlast á því að hér sé bara að ræða um smá grín, en það er bara einfaldlega ekki rétt. Hér er um að ræða mjög misvísandi áróður sem er settur fram í búning gríns. Áróðri sem gerir lítið úr aðstæðum og elur á fjandsemi gagnvart minnihlutahóp sem var að fá miklar réttarbætur.“
„Helgi Sigurðsson ætti því bara að skammast sín. En miðað við aldur og fyrri störf þá efast ég um að hann muni nokkurntímann gera það, enda trans fólk bara einn af þeim mörgu hópum sem hann hefur sérstakt dálæti af því að níðast á með skopmyndum sínum,“ skrifar Ugla en færslu hennar í heild sinni má sjá hér að neðan og við mælum með að lesa yfir hana.