Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er væntanlegur til landsins í opinbera heimsókn þriðja september næstkomandi.Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu sem birt var í gærkvöldi. Pence er afar umdeildur en hann er meðal annars þekktur fyrir að vera á móti réttindum hinsegin fólks. Við tókum saman sjö ummæli hans um samkynhneigð sem eru vægast sagt taktlaus.
Samkynhneigð hjónabönd
Það er ekkert leyndarmál að Pence er mótfallinn því að bjóða hinsegin fólki upp á sömu mannréttindi og gagnkynhneigðir. Árið 2006 sagði hann að lög sem leyfi samkynhneigð hjónabönd séu dæmi um hrun samfélagsins.
Hinsegin hermenn
Árið 2011 skrifaði Barack Obama undir löggjöf sem leyfði samkynhneigðum hermönnum að gegna herskyldu í Bandaríkjunum án þess að þurfa að fela kynhneigð sína eins og hafði tíðkast. Pence var auðvitað ósammála Obama og varaði hann við því að lögin gætu haft slæm áhrif á herinn, það væri ekki þess virði bara til þess að koma til móts við frjálslyndan áróður.
Samkynhneigðir ekki góðir starfsmenn
Árið 1990 hvatti hann vinnustaði í Indiana til þess að ráða ekki samkynhneigða. „Þeim fylgir gífurlegt magn af sjúkdómum vegna kynferðislegs eðlis þeirra og lauslætis,“ var meðal annars það sem Pence skrifaði í greinum sínum.
og því á að refsa þeim…
Sem ríkisstjóri Indiana skrifaði hann undir löggjöf sem gerði fyrirtækjum kleift að mismuna hinsegin fólki og nota sínar eigin trúarlegu skoðanir sem rökstuðning.
eða breyta þeim..
Hann stakk einnig upp á því að nota fjármagn sem ætlað var í lækningar og rannsóknir á HIV frekar í rannsóknir og meðferðir fyrir hinsegin fólk og „lækna það af samkynhneigð“.
Neitaði að styðja rétt samkynhneigðra til að ala upp börn
Árið 2012 vildi Pence ekki segja að hann styddi við bakið á pörum af sama kyni sem ætluðu sér að ala upp barn saman.