Ég held að maðurinn minn eigi ekki alltaf sjö dagana sæla. Verkefnin eru óþrjótandi, sé maður giftur konu sem er önnum kafin við að taka út þroska á einhverskonar hraðferð. Þroska sem átti í raun að vera verkefni allra fullorðinsáranna en þar sem það rann nokkuð seint upp fyrir mér að þar væri mikið verk óunnið, þá þarf ég bara að gera þetta nokkuð fljótt og örugglega.
Ég var jú meistari í aðferðum sem var ætlað að skauta framhjá því að kynnast sjálfri mér til hlítar og horfast í augu við eigin kvíða og óöryggi. Það var ekki farsælt til lengdar.
Þessa dagana er ég hinsvegar að hamast við að þykja nægilega vænt um sjálfa mig til að gangast við tilfinningum mínum, skoðunum og öllu því sem ég er.
Þetta er snúið fyrir mig og ekki síður snúið fyrir manninn minn. Hann lendir nefnilega í því að vera sálarspegill fyrir mig og vera ætlað að hlusta á allar vangavelturnar og helst að svara öllum spurningunum sem vakna á þessari vegferð. Dagarnir okkar geta gengið þannig fyrir sig að árla morguns er erfiðum tilvistarlegum spurningum hellt yfir manninn sem er varla vaknaður, ekki búinn að fá kaffið sitt og ekki búinn að pissa. Um hádegisbilið er ég farin að efast um að tilfinningar mínar gagnvart ákveðnum málefnum eigi rétt á sér og þá liggur auðvitað beinast við að spyrja hann hvort svo sé. Hvort ég sé bara móðursjúk, eða hvað hann haldi að fólk muni nú halda um mig? Sem er líklega jafnvitlausasta spurning sem hefur verið borin upp. Hann veit bara hvað hann heldur um mig en hefur auðvitað ekki hugmynd um hvað aðrir halda um mig. Og sem betur fer finnst honum ég frábær, fyndin og elskuverð. Annars væri ég í vondum málum. Um kvöldmatarleytið er ég búin að velta einhverju allt öðru fyrir mér frá miðjum degi og ég stekk beint inn í umræðuefnið án þess að muna að hann var aldrei settur inn í það. Sem betur fer hefur hann húmor fyrir allri þessari vitleysu. Hann stýrir mér oftast mjúklega á rétta braut, hann forðast að svara öllu þessu spurningaflóði heldur hvetur mig áfram í því að svara sjálfri mér.
Sjá einnig: Frelsið við að vera kerling
Þetta snýst nefnilega alls ekki um hvað honum finnst, eða hvað neinum öðrum finnst. Þetta snýst eingöngu og fyrst og síðast um hvað mér sjálfri finnst og hvaða leiðir henta mér til að sýna sjálfri mér væntumþykju. Það er auðvelt að kunna réttu replikkurnar í leikritinu, það er auðvelt að hafa fræðin á hreinu og vita að miðaldra konan ég á skilið bæði virðingu, vinsemd og ást, líka frá sjálfri mér. Allt annar handleggur er að sannfæra tilfinningalífið um að svo sé. Sleppa öllum töffaraskap, kaldhæðni og rökræðum og leyfa mér að vera auðsæranleg og berskjölduð. Feðraveldið hefur jú fordæmt tilfinningasemi og kerlingavæl og móðursýkin er sérstaklega eyrnamerkt okkur konum. Þær skulu sérstaklega passa sig yfirhöfuð, á að sýna ekki tilfinningar þar sem það dregur úr möguleikum á því að karlmenn taki þær alvarlega og veiti þeim sess í karlaheiminum.
En hvað ef þessu er í raun þveröfugt farið? Tilfinningarnar okkar eru það sem gerir okkur mennsk og það er líklega ekki fyrr en við viðurkennum þær fyrir það sem þær eru, að okkur getur liðið vel í eigin skinni. Því er það þroskaverkefnið mitt að læra að tilfinningarnar mínar eiga tilverurétt. Ég þarf eins og allir aðrir að skilja þær og setja þær í heilbrigðan farveg en til þess verð ég vissulega að gefa þeim rými.
Dæmi um samskipti okkar hjóna þessa dagana snýst um langkeyrslur. Ég er ekkert feimin við að viðurkenna að hann er öruggari bílstjóri en ég en ég tek þó að sjálfsögðu við stýrinu til að hvíla hann. Húnavatnssýslurnar hafa gjarna verið mínar í þessum skiptum og fræg er sagan þegar við rifumst í Vestursýslunni, ég sneri tvisvar við til að fara heim aftur en svo sættumst við tvisvar fyrir Holtavörðuheiði þannig að við enduðum á að keyra sýslurnar fimm sinnum. Þetta var reyndar útúrdúr, ég ætlaði að segja frá mínu óöryggi við aksturinn sem hefur þau áhrif að ég þarf að spyrja með reglulegu millibili….„finnst þér nokkuð að ég eigi að keyra hraðar?”, „á ég nokkuð að fara fram úr þessum?”, osfrv. Ég fæ alltaf sama svarið. „Þú ert að keyra bílinn, þú ræður þessu sjálf”. Svo lokar hann augunum og blundar eða heldur áfram að skrolla í símanum sínum. Nákvæmlega þetta gildir í lífinu sjálfu. Þar er ég sjálf undir stýri og hvorki hann né nokkur annar getur sagt til um það hvernig ég haga akstrinum.
Ég er nefnilega ágætis bílstjóri, ég þarf bara að trúa því sjálf og hægja svo svolítið á mér og treysta því að það sé bara fullt af öðrum ágætis bílstjórum þarna úti.
Nú situr hann hinsvegar sjálfur undir stýri og við brunum um hið græna fylki Vermont á leið til að passa barnabarnið. Lífið er mjúkt þennan laugardag og ég sendi góðar kveðjur úr Trumplandi.