Auglýsing

Fjalla um þjóðsögur og furðulega menningu Íslands á stærstu listahátíð í heimi

Birgitta Sigursteinsdóttir og Ester Sveinbjarnardóttir, sem flestir kannast líklega við úr Leikhópnum X eru um þessar mundir staddar í Skotlandi á Edinburgh Festival Fringe sem er stærsta listahátíð í heimi en í ár eru í kringum 4000 mismunandi sýningar á hátíðinni.

Þar sýna þær sketcha sýninguna Ice Ice Iceland, en sýningin fjallar um þjóðsögur og hina furðulegu menningu Íslands. Í sýningunni má því meðal annars sjá álfa, drauga,  og jafnvel Gilitrutt sjálfa í öllu sínu veldi ásamt lötu húsfreyjunni svo eitthvað sé nefnt. Sýningin hefur fengið góðar viðtökur og hlotið mikið lof áhorfenda.

Sjá einnig: Tíu bestu sketsar Leikhópsins X: „I have lúsmý“ 

„Fólk hefur mikinn áhuga á Íslandi og við höfum fengið marga áhorfendur sem hafa annaðhvort farið til Íslands eða eru á leiðinni þangað. Nokkrir hafa meira að segja sagst kannast við sumar sögurnar. Fólk hefur verið virkilega ánægt og þakkað okkur fyrir frábæra sýningu, ætli þetta sé ekki farið að spyrjast út því við fáum fleiri og fleiri áhorfendur með hverjum deginum,“ segir Birgitta.

„Fringe er ekki bara sýningar og áhorfendur, við erum búnar að hitta félaga okkar frá norðurlöndunum og Kanada.  Mikið um tengslamyndanir sem færa okkur frekari tækifæri í framtíðinni.  Sannkallað draumaland þeirra sem vilja auka tengslanetið sitt,“ segir Ester.

 Sýningin er alls sýnd 22 sinnum, ein sýning á dag á tímabilinu 3-24.ágúst.

„Tíminn líður rosalega hratt í svona skemmtilegu verkefni. Við erum mjög stoltar af því hversu vel þetta hefur gengið og þakklátar fyrir góðar viðtökur. Þetta er búið að vera langt ferli að vera með eigin sýningu hérna, við komum á hátíðina í fyrra til að kanna aðstæður og skoða hvað aðrir listamenn væru að gera, svo þetta ferli er búið að taka heilt ár.  Þetta er krefjandi, það er skrítið að sýna svona oft, dag eftir dag en maður kemst fljótt í rútínu með það. Mig hefur dreymt um að vera með sýningu hérna síðan ég kom fyrst á þessa hátíð 2012, það er bara eitthvað svo heillandi við þetta allt, hvert sem maður lítur eru listamenn að gera sína list. Á Fringe er pláss fyrir alla til að deila list sinni með öðrum. Skapandi orka allstaðar og það er það fallegasta sem ég veit,“ segir Birgitta.

„Við fengum 5 stjörnur frá Succubus Magazine hérna í Skotlandi, en þau vilja styðja við konur í sviðslistum og það kom okkur ánægjulega á óvart, þó við höfum vissulega verið metnaðarfullar og lagt mikið í sýninguna“ segir Ester

Sýningin er sýnd á Bar Bados í sal númer 1 alla daga klukkan 13:45 til og með 24.ágúst. Það þarf ekki að kaupa miða fyrirfram svo það er um að gera fyrir þá sem eiga leið um Edinborg næstu vikuna að mæta og kíkja á þær stöllur. Hver veit nema þú lærir eitthvað nýtt um Ísland.

Hægt er að fylgjast nánar með ævintýrum þeirra á Facebook með því að smella hér.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing