Eigendur Keiluhallarinnar, Saffran, Hamborgarafabrikkunnar, Eldsmiðjunnar og fleiri veitingastaða hafa ákveðið að ganga í eina sæng. Umræddir veitingastaðir, ásamt fleirum, voru áður reknir undir nafni Gleðipinna annars vegar og Foodco hins vegar. Samkeppniseftirlitið þarf að kvitta upp á ráðahaginn en fyrirhugað er að sameiningin gangi í gegn um komandi áramót. Hugmyndin með sameiningu fyrirtækjanna undir merkjum Gleðipinna er að nýta ólíka styrkleika og reynslu eigenda og starfsfólks og sameinast um að gefa hverjum og einum veitingastað þá athygli sem hann þarfnast.
Jóhannes Ásbjörnsson, oftast kenndur við Hamborgarafabrikkuna, er einn af aðaleigendum hins nýja félags. „Það eru skemmtilegar tímar framundan. Okkur hefur gengið vel með þá staði sem við höfum opnað, Hamborgarafabrikkuna, Keiluhöllina og Shake&Pizza. Svo erum við nýlega komin inn í rekstur Blackbox pizzastaðanna.”
Áherslan verður á aukin gæði
„Við ætlum að vinna enn betur með sérkenni staðanna og horfa til upprunans. Þetta eru ólíkir staðir og viðskiptavinir þeirra eru meðvitaðir um hvað gerir þá sérstaka, hvort sem það er birkið úr Hallormsstaðaskógi sem kyndir ofninn á Eldsmiðjunni eða orginal pítusósan á Pítunni í Skipholti. Sumir staðirnir eiga að okkar mati skilið að fá aðeins meiri ást en þeir hafa fengið að undanförnu og ætlum við einmitt að ráðast í metnaðarfullar og ástríkar aðgerðir á næstunni. Við ætlum að leggja enn meiri áherslu á gæði enda má lengi gott bæta. Undir okkar hatti verða bæði rótgrónir staðir og nýrri í bland og við erum svo heppin að innan okkar hóps eru meistarakokkarnir Eyþór Rúnarsson, Karl Viggó Viggósson og Viktor Örn Andrésson, sem ásamt fleiri góðum ráðgjöfum munu koma að vöruþróuninni hjá okkur.” Að sögn Jóa verður fólk strax vart við nýjungar á nokkrum stöðum, svo sem á Saffran þar sem verið er að uppfæra útlit og innréttingar í tilefni af 10 ára afmæli staðarins og þá verður útlit American Style einnig uppfært, gæði aukin og þjónustan efld.
Mikilvægt að skapa gott umhverfi fyrir starfsfólk
Jói segir að áhersla verði lögð á að skapa gott umhverfi fyrir starfsfólk. „Það á að vera gaman að vinna hjá Gleðipinnum og við viljum halda í samstarfsfólk okkar eins lengi og við getum. Við ætlum því að bjóða okkar starfsfólki námsstyrki svo það geti betur stundað nám samhliða vinnu.” Jói trúir því að þannig sé hægt að halda betur í skólafólk sem sé stór hluti þeirra sem starfa í veitingageiranum og um leið að hvetja annað starfsfólk til að efla sig í sinni iðn eða læra nýtt fag.
„Við ætlum að vanda okkur,” segir Jói
Jói segir alla staðina eiga sína sína sögu. „Kaffivagninn er til dæmis elsti veitingastaður landsins, stofnaður 1935. Svo er gaman að segja frá því að ég man vel eftir mér í Fylkis-apaskinnsgalla á American Style í Skipholti þegar ég var 8 ára. Núna rúmum 30 árum síðar er ég kominn í hlutverk veitingamanns á sama stað, sem er frábært. Veitingageirinn er síbreytilegur og krefjandi. Ég trúi því að með skýrri sýn á gæði matar og þjónustu muni allir staðirnir eiga möguleika á að vaxa og dafna enn frekar. Við ætlum að vanda okkur,” segir Jói.
Fjölbreyttur og reynslumikill hópur mun starfa saman og stýra félaginu næstu árin. Jóhannes Ásbjörnsson verður einn af aðaleigendum félagsins og mun stýra markaðsmálum, Jóhann Þórarinsson verður forstjóri, Bjarni Gunnarsson verður í framkvæmdastjórn, en Bjarni hóf störf í söluturninum Staldrinu 15 ára gamall og hefur starfað óslitið hjá fyrirtækinu síðan. María Rún Hafliðadóttir verður mannauðsstjóri. Trausti Snær Kristjánsson verður framkvæmdastjóri Hamborgarafabrikkunnar, en hann hefur starfað á staðnum frá opnun hans árið 2010. Þá mun Andrea Pétursdóttir verða framkvæmdastjóri Keiluhallarinnar og Shake&Pizza, en Andrea hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu þrátt fyrir ungan aldur. Karl Viggó Viggósson og Jón Gunnar Geirdal, stofnendur og meðeigendur í Blackbox munu áfram reka þá staði og leiða vöxt þeirra. Guðmundur Auðunsson verður starfandi stjórnarformaður hins sameinaða félags.
Vörumerkin sem munu tilheyra Gleðipinnum eru American Style, Hamborgarafabrikkan, Eldsmiðjan, Blackbox, Saffran, Pítan, Aktu taktu, Kaffivagninn, Roadhouse, Keiluhöllin og Shake&Pizza. Stefnt er að fjölgun staða á næstu árum, þ.á.m. mun ný Keiluhöll og Shake&Pizza staður opna á jarðhæð KEX hostel í miðborg Reykjavíkur árið 2020.