Næstkomandi 20. september—á tvöhundruð sextugasta og þriðja degi ársins—ætlar bandaríski rapparinn Skyzoo og samlandi hans, taktsmiðurinn Pete Rock, að gefa út plötuna Retropolitan. Platan mun geyma 12 lög, þar á meðal lagið It’s All Good (Þetta er, allt saman, í fínasta lagi, á íslensku) sem þeir félagar gáfu út í gær (sjá hér að ofan). Eins og einhver aðdáandi Skyzoo sagði í athugasemdakerfi Youtube: „ekta Hip Hop hér á ferð,“ hvað sem það nú þýðir.
Nánar: https://thesource.com/2019/08/13/skyzoo-and-pete-rock-set-to-release-retropolitan-album/
Þess má einnig geta að Styles P, Benny the Butcher, Conway the Machine, Westside Gunn og Elzhi munu allir koma við sögu á plötunni.
Í samtali við tímaritið The Source í dag lét Skyzoo eftirfarandi orð falla um Retropolitan:
„Það var brýnasta nauðsyn sem var kveikjan að plötunni. Platan er hugsuð sem ástarbréf til New York borgar, en einnig sem tilraun til þess að vekja borgarbúa til vitundar; á tímum þar sem skrum gagnsýrir veruleikann, þar sem FOMO hefur velt heilindum úr sessi, og þar sem miðstéttarvæðingin hefur bolað hefðinni burt, þá öskrar platan á borgarbúa og biður þá að vakna til lífsins. Á sama tíma þökkum við Pete borginni fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir okkur.“
– Skyzoo
Hér er svo lagið The Definitive Prayer þar sem Skyzoo rappar yfir Holy Thursday eftir David Axelrod.