Fréttir
Lagið Can You Feel the Love Tonight samdi enski tónlistarmaðurinn Elton John í samstarfi við samlanda sinn Tim Rice (sem er textasmiður og rithöfundur). Lagið hljómaði í Disney-teiknimyndinni The Lion King sem kom út árið 1994 og var það jafnframt valið besta frumsamda lagið á Óskarsverðlaunahátíðinni sama ár.
Næstkomandi 19. júlí verður ný útgáfa af The Lion King frumsýnd. Í gær (23. júní) rataði ný stikla úr myndinni á Youtube (sjá hér að ofan). Í stiklunni hljómar lagið Can You Feel the Love Tonight—en enginn Elton John í þetta skipti; þess í stað eru það Donald Glover, einnig þekktur sem rapparinn Childish Gambino, og Beyoncé sem flytja lagið. Þá fara þau Glover og Beyoncé einnig með aðalhlutverk myndarinnar: hinn fyrrnefndi talsetur hlutverk Simba og hin síðarnefnda hlutverk Nölu. Þá tala þeir Eric André og John Oliver einnig inn á myndina. James Earl Jones mætir aftur til leiks sem Mufasa.