Fréttir
Í mars á þessu ári fór SXSW kvikmyndahátíðin fram í Texas. Ein af þeim myndum sem vakti hvað mesta athygli er kvikmyndin The Peanut Butter Falcon. Myndinni leikstýrðu þeir Tyler Nilson og Michael Schwartz og er þetta jafnframt fyrsta myndin í fullri lengd sem tvíeykið sendir frá sér (þeir skrifuðu einnig handrit myndarinnar). Með aðalhlutverk myndarinnar fer Zack Gottsagen—34 ára bandarískur leikari með Downs-heilkenni—og Shia Lebouf. Stikla úr myndinni rataði á Youtube í gær (sjá hér að ofan).
Myndin þykir svipa til ævintaýrasögu úr smiðju bandaríska höfundarins Mark Twain—sem ritaði meðal annars skáldsöguna Stikilsberja-Finnur—og segir frá Zak (Zack Gottsagen), ungum manni með Downs-heilkenni sem hleypur brott frá hjúkrunarheimili í því augnamiði að gerast atvinnumaður í glímu. Fyrir tilviljun kynnist Zak smákrimmanum Tyler (Shia Lebouf) sem síðar gerist þjálfari Zak og vinur.
The Peanut Butter Falcon hefur hlotið frábæra dóma frá gagnrýnendum (er með 100% á Rotten Tomatoes er þessi grein er rituð) og þykir Zack Gottsagen standa sig með prýði.
Nánar: https://www.rottentomatoes.com/m/the_peanut_butter_falcon
Líkt og fram kom í tilkynningu frá Tyler Nilson á Reddit var handrit The Peanut Butter Falcon skrifað með Gottsagen sérstaklega í huga:
„Sæl, öll. Kærar þakkir fyrir ástina og stuðningin. Fyrir fimm árum síðan tjáði vinur okkar, Zack Gottsagen—sem er með Downs-heilkennið—að hann langaði að verða kvikmyndastjarna og bað okkur um að skjóta mynd með sér. Við slógum strax til vegna þess að við vorum sannfærðir um að Zack hefði hæfileikana til þess að fara með aðalhlutverkið í leikinni kvikmynd; hann þyrfti bara tækifæri til að sanna sig … í kjölfarið skrifuðum við handritið að þessari mynd með hann sérstaklega í huga. Ég gæti ekki verið stoltara af Zack Gottsagen og frammistöðu hans í The Peanut Butter Falcon, sem og meðleikurum hans: Shia Lebouf, Dakota Johnson, John Hawkes, Thomas Haden Church, Jon Bernthal, Bruce Dern, Yelawolf, Jake „The Snake“ Roberts og Mick Foley.“
– Tyler Nilson
Myndin er væntanleg í kvikmyndahús í ágúst á þessu ári.