Síðastliðinn 5. mars gáfu Rari Boys út myndband við lagið Önnur tilfinning á Youtube (sjá hér að ofan). Lagið hefur—að mati þeirra sem gaumgæfa íslenskt rapp—stimplað sig inn sem eitt af lögum ársins, þó það sé, vitaskuld, fullsnemmt fyrir þesskonar yfirlýsingar.
Viðtal SKE við Rari Boys: https://ske.is/grein/islenska-s…
Önnur tilfinning var, á sínum tíma, vinsælasta íslenska myndbandið á Youtube (#1 Trending) en áhorf þess nemur svipaðri tölu og myndband gulldrengsins Arons Can við lagið Aldrei heim; frá því að myndbandið við Önnur tilfinning kom út hefur það verið skoðað rúmlega 28.000 sinnum (í þessum rituðu orðum).
Í dag (19. mars) fylgdi hljómsveitin vinsældum lagsins eftir með útgáfu plötunnar Atari á Spotify (sjá hér að neðan) en um ræðir fyrstu skífuna sem Rari Boys gefa út. Platan inniheldur sjö lög og skartar tveimur gestum: Yung Nigo Drippin’ og Softside.
Við fyrstu hlustun rúllar platan vel í gegn. Mælir SKE sérstaklega með laginu Hlaupa Hratt en það stendur upp úr (ásamt Önnur tilfinning). Viðlagið er í senn grípandi og fangar, á einhvern sérstaklega hrífandi máta, þá tilfinningalegu ringulreið sem einkennir táningsárin: Holden Caulfield á hlaupum undan raunveruleikanum. En sitt sýnist, eflaust, hverjum.
Hlaupa, hlaupa, hlaupa hratt /
Ayyyy /
Ekki hinkra, heyra í mér /
Farinn burtu: meina vel /
Hlaupa, hlaupa, hlaupa hratt /
Ayyyy /
Löggan er á eftir mér /
Leyfðu mér að ‘crash-a’ hér /
(Hér fyrir neðan er svo myndband Rari Boys við lagið „Tracksuit Made of Gold.“)