Lindy West, höfundur bókarinnar Shrill, var gestur hlaðvarpsins This American Life í vikunni. Í þættinum lýsir hún því hvernig viðhorf hennar gagnvart sjálfri sér hefur breyst – en Lindy West er í eigin orðum „feit.“
Viðhorfsbreytingin, segir hún, á rætur að rekja til þeirra tíma sem hún starfaði sem blaðamaður hjá dagblaðinu the Stranger í Seattle og átti í orðaskaki við ritstjóra dagblaðsins, Dan Savage. Dan Savage var þá í einhvers konar herferð gegn offitusjúklingum í Bandaríkjunum og Lindy West blöskraði hversu hörðum orðum Dan Savage fór um feitt fólk og hversu litla samkennd hann sýndi þeim í pistlum sínum. Í skrifum sínum teiknaði Dan upp afar einfalda mynd af offitusjúklingum þar sem hann ýjaði að því að þessi hópur fólks væri í raun duglaus og óagaður og væri í ofanálag að kosta bandaríska skattgreiðendur formúu.
Í þættinum segir hún:
„Ég hafna alfarið þessum hugsunarhætti. Mér er alveg sama hvort að feitt fólk geti breytt líkama sínum með sjálfsaga og heilbrigðum ákvörðunum. Flest feitt fólk hefur nú þegar reynt þetta og sumt af því fólki hefur kannski tekist það – en það skiptir ekki máli. Spurning mín er þessi: Hvað ef þetta fólk reynir og reynir og reynir en ekkert gengur? Hvað ef þau er ennþá feit? Ef þau verða feit að eilífu? Hvað gerum við, við þau þá? Viljum við í alvöru að milljónir táningsstelpna finnast þau vera föst í líkömum sem eru að eyðileggja líf þeirra? Og í ofanálag að þetta stafi allt saman af þeirra eigin siðferðisbrestum? Og í ofanálag að þau séu að eyðileggja Bandaríkin með þessari kostnaðarsamri sykursýki sem þau hafa þó ekki enn þróað með sér? Það sem er skammarlegt í þessu öllu saman er skorturinn á hluttekningu.“
Lindy West rökstyður mál sitt með því að benda á að í nýlegri rannsókn kemur fram að aðeins einn af eitt hundrað bandarískum offitusjúklingum takist að koma sér í „kjörþyngd“ og halda sér í þeim flokki (250,000 einstaklingar tóku þátt í rannsókninni og varði rannsóknin í 9 ár). Einnig kemur fram í þættinum að þriðjungur Bandaríkjamanna eru skilgreindir sem ofþungir („overweight“) og þriðjungur þeirra hóps séu skilgreindir sem offitusjúklingar („obese“).
Lindy West segir að vera feit/ur er nógu mikil refsing í sjálfu sér. Hennar lausn til þess að brjóta sér leið út úr þessu kerfi, eða viðhorfi, var sú að koma út úr skápnum sem „feit.“
Hún segir:
„Okkur er kennt að hugsa um offitu sem einhvers konar skammarlegt ástand sem er þó ekki varanlegt. Svo lengi sem þú ert að reyna að grenna þig þá er það í lagi. Í raun og veru lítum við á feitt fólk sem mjótt fólk sem mistekst í sífellu að grenna sig. Og bara það að segja það upphátt: ,ég er feit´ er ágætis leið til þess að taka sjálfum sér eins og maður er. Ég veit ekki hvers vegna maður reynir að búa í þessari uppdiktuðu framtíð þar sem maður verður einn daginn grannur. Ég hef verið feit allt mitt líf … áður en ég kom út úr skápnum sem feit var ég staðráðin að breyta því. En svo hugsaði ég ,af hverju ekki hætta að telja möndlur á hverjum degi og eyða tímanum frekar í það að hugsa hvernig ég gæti verið hamingjusöm – núna?´
Þáttinn má hlusta á í heild sinni hér, en þetta er merkilegur þáttur sem veitir hlustendum áhugaverða sýn inn í heim fólks sem glímir við offitu: