Fréttir
Um aldaraðir hafa rithöfundar, ljóðskáld og, jú—rapparar, auðgað enska tungu með því að smíða nýyrði, eða með því að endurskilgreina gömul orð. Í því samhengi má helst nefna nýyrði á borð við Banana Republic (bananalýðveldi) sem rithöfundurinnn O Henry smíðaði í byrjun 20. aldarinnar; beatnik (bítnikki) sem blaðamaðurinn Herb Caen bjó til á sjötta áratug síðustu aldar; og slanguryrðið bootylicious sem rapparinn Snoop Dogg diktaði árið 1992 (Destiny’s Child á þó heiðurinn á vinsældum orðsins).
Nánar: https://www.xxlmag.com/news/2016/05/hip-hop-words-in-oxford-english-dictionary/
Þar sem enskan er lifandi tungumál bætast ný orð við táknkerfið ár hvert—og í gær (23. apríl) tilkynntu forsvarsmenn Merriam-Webster orðabókarinnar t.d. að búið væri að bæta yfir 640 nýyrðum við netútgáfu orðabókarinnar.
Meðal þeirra færslna sem búið er að bæta við er skilgreining bandaríska rapparans Eminem á orðinu stan. Orðið kemur fyrir sem bæði nafnorð og sögn. Sem nafnorð er stan skilgreint sem Tryggur aðdáandi sem er fram úr hófi ákafur í aðdáun sinni. Sögnin stan merkir þar af leiðandi Að vera fram úr hófi ákafur sem aðdáandi einhvers eða einhverrar. Í öllum tilfellum er stan flokkað sem slangur, oft og tíðum niðrandi.
https://www.merriam-webster.com/dictionary/stan
Í tilkynningu Merriam-Webster sögðu forsvarsmenn orðabókarinnar að tilgangur umræddrar viðbótar væri að endurspegla breytt þjóðfélag:
„Enskan sefur ekki—og það gerir orðabókin ekki heldur. Endurskoðun orðabóka er stöðug viðleitni og endurspeglar þörf þjóðfélagsins til þess að skilja heiminn með orðum. Ný fyrirbæri dúkka upp í sífellu sem þarf að nefna, sem og nýjar skilgreiningar á gömlum orðum sem þarf að útskýra. “
– Merriam-Webster
Orðið stan vísar í samnefnt lag eftir Eminem sem kom út árið 2000 (sjá hér að neðan).