Frá því að útvarpsþátturinn Kronik fór aftur í loftið í lok nóvember á síðasta ári hafa
fjöldi góðra gesta kíkt í heimsókn til þeirra Robba og Benna: Emmsjé Gauti, Erpur,
Bent, Dóri DNA, GKR, Kilo, Sturla Atlas, Herra Hnetusmjör, Alvia Islandia, Shades
of Reykjavík, Aron Can, CYBER, HRNNR & Smjörvi ásamt glás af góðum
plötusnúðum.
SKE reifar hér uppáhalds „live“ frammistöður listamanna í þættinum:
11. Sturla Atlas – Mean 2 U
Logi Pedró og Sigurbjartur Sturla kíktu við í Kronik rétt fyrir jól en sá síðarnefndi tók lagið Mean 2 U í beinni. Lagið var jafnframt í 7. sæti árslista Kronik yfir 20 bestu íslensku rapplögin árið 2016.
10. CYBER – Drullusama
Þær Salka Valsdóttir og Jóhanna Rakel (CYBER) heimsóttu Kronik um miðjan febrúar ásamt Þuríði Blævi og tóku lagið Drullusama í beinni: svalur og yfirvegaður flutningur sem féll vel í kramið hjá hlustendum.
9. Herra Hnetusmjör – Freestyle
Fyrsti gestur Kronik á nýju ári var rapparinn Herra Hnetusmjör. Flutti hann lagið Það skiptir ekki máli ásamt því að semja vísur að munni fram yfir bítið Otis Redding sem Kanye West og Jay-Z gerðu frægt á sínum tíma. Hnetusmjör aðlagaði sig vel að bítinu og var í miklu stuði.
8. GKR – Lifa lífinu
Síðastliðinn 10. desember kíkti GKR í hljóðverið og tók tvö lög, einlægur að vanda: Tala um og Lifa lífinu. Hið síðarnefnda er í sérstöku uppáhaldi umsjónarmanna Kronik.
7. Alvia Islandia – Ralph Lauren Polo
Alvia Islandia mætti í Kronik 14. janúar og flutti lagið Ralph Lauren Polo af mikilli innlifun.Lagið var í 11. sæti árslista Kronik yfir 20 bestu íslensku rapplögin árið 2016.
6. Kilo – Two Techs
Keflvíski rapparinn Kilo mætti í Kronik rétt fyrir jól og var sérdeilis auðmjúkur í viðmóti er hann flutti lögin Two Techs og Fucbois. Fáir rapparar státa sig af jafn fáguðu flæði og keflvíski Vape kóngurinn.
5. HRNNR & Smjörvi – Rúllum á bílum
Nýverið kíkti tvíeykið HRNNR & Smjörvi í hljóðverið og tóku lagið Rúllum á bílum í beinni en um ræðir sýru af bestu gerð; Smjörvi setti á sig logsuðugleraugun á meðan HRNNR horfði á heiminn í gegnum bleik gleraugu.
4. Emmsjé Gauti – Strákarnir
Fyrsti gestur Kronik var enginn annar en Emmsjé Gauti en hann tók smellinn
Strákarnir í beinni. Lifði hann sig svo rækilega inni í flutninginn að á tímabili hljómaði hann eins og Michael Jackson.
3. BlazRoca – FÝRUPP
Enginn maður hefur verið jafn hress og Erpur Eyvindarson, BlazRoca, er hann heimsótti Kronik síðastliðinn 10. desember. Flutningur hans á laginu FÝRUPP verður að teljast eitt af eftirminnilegustu atvikum Kronik síðastliðin misseri; seinna erindið (01:30 ca.) er algjört gull.
2. Elli Grill – Freestyle
Án vafa eitt fallegasta ,spitt’ í sögu Kronik: Elli Grill að rappa yfir endurhljóðblandaða útgáfu af bítinu Otis Redding. Kemst Grillar-inn á ákveðið
flug í kringum 01:20. „BARS!“
1. Aron Can – Rapp
Ef einhverjir efuðust um hæfileika Arons Can sem rappara þá má með sönnu segja að þessi iðrunarlausi (Enginn mórall) ungi maður hafi tekið af allan vafa með því að rappa gott rapp í beinni (sjá hér fyrir ofan); Róbert Aron og Benedikt Freyr virtust að minnsta kosti vera dolfallnir yfir frammistöðu Arons.
BÓNUS
Dóri DNA – Freestyle
Útvarpsþátturinn Kronik er í loftinu öll laugardagskvöld á X-inu 977 á milli 17:00 og 19:00. Næsti gestur þáttarins er rapparinn Black Pox. „Stay tuned.“