Auglýsing

Emmsjé Gauti

„Nú er bara mikilvægt að mæta markaðnum á miðri leið, sérstaklega fyrir listamann af minni stærðargráðu hérna á Íslandi“

Þótt Gauti Þeyr Másson, Emmsjé Gauti, sé enn ungur – hann er á tuttugasta og fimmta aldursári eins og hann minnti rækilega á með laginu 24 nýverið – er hann fyrir löngu (í litla samhengi hlutanna) orðinn eitt stærsta nafnið í íslenskum rappheimi. Hann var áður í hljómsveitunum 32c og Skábræðrum en hóf sólóferil árið 2010 og gaf árið eftir út plötuna Bara ég. Gauti er líka óhræddur við að færa sig inn á nýjar brautir í tónlistinni og á síðustu plötu hans, Þeyr, má meðal annars gæta R&B og poppáhrifa. Fyrir utan það svo að hann kemur núorðið yfirleitt fram með mökkþéttu rokkbandi. Þeir sem hafa séð Gauta á sviði vita líka að hann er eins og skýstrokkur á sviði, orkubúnt sem gefur harðkjarnaböndum ekkert eftir í tryllingi. Því hefur heyrst fleygt að hann geti krádsörfað upp veggi ef sá gállinn er á honum. Ég veit ekki hve mikið er til í því en ég veit að hann er kraftmikill og duglegur með endemum, bæði hvar víkur að spilamennsku og samningu nýs efnis. Við heyrumst í dálitlum glugga sem Gauta gefst á milli þess sem hann hendist á milli landshluta. Ég byrja á því að spyrja Gauta hvernig nýliðin páskahelgi hafi farið með hann.

Ég var á Ísafirði, á Aldrei fór ég suður-hátíðinni. Var að spila þar í fyrsta sinn og það var eiginlega frekar sturlað. Eitthvað svona vinalegt powergigg eiginlega, salurinn alveg stappaður og trylltur. Ég krádsörfaði yfir allan staðinn og gaf hljóðmanninum five. Svo var þetta partý daginn eftir, allir naktir og yndislegheit. Svo var eitt sem mér fannst alveg magnað, það var hægt að fá sígó frítt á barnum. Maður fór bara á barinn og bað um rettu og var spurður „hvernig?“ Þetta var frábært. Svo flaug ég heim á mánudeginum, stoppaði í einhvern hálftíma, stökk í sturtu og svona og svo beint upp í næstu vél til Akureyrar. Og vel að merkja er ég ógeðslega flughræddur, grét í tveimur af þremur flugum þessa helgi. Ekki því síðasta, þá var ég einn. Ég held að ég verði einhvern veginn flughræddari þegar ég er með vinum mínum, hvernig sem á því stendur.

Blessaður drengurinn. Menn leggja ýmislegt á sig fyrir harkið. Og þá liggur beint við að spyrja hvað þú sért að gera norður?

Þetta er dálítið fyndið, ég er kominn hingað til að halda AK-Extreme-hátíðina. Er rétt kominn frá Ísafirði þar sem ég var bara þessi gaur sem mætir og spyr hvar bjórinn sér og svona, spáði ekkert í því að það er fullt af fólki sem er búið að vera að vinna á fullu til að allt gangi, til að bjórinn sé klár. Nú er ég allt í einu orðinn einn af þessu fólki, útdeilandi bjórmiðum og svoleiðis. En já, nú erum við, einhverjir tíu, mættir í Glerá-skálann upp í fjalli til að skipuleggja þetta brjálæði. Tónlistar- lænöppið er glæsilegra en nokkru sinni fyrr, við erum að tala um Úlf Úlf, Gísla Pálma, Agent Fresco, Young Karin og fleiri. Og auðvitað mig. Ég er með því ég get það, segir Gauti hlæjandi. Ég er eiginlega orðinn svona húsband hátíðarinnar. Þetta stækkar stöðugt. Við prufuðum að færa tónleikana í Sjallann í fyrra og verðum aftur þar í ár. Áður vorum við á Græna hattinum sem er frábær staður en við bara sprengdum hann utanaf okkur. Sjallinn var stappaður í fyrra svo það var greinilega nauðsynlegt og gott skref. Þetta er svo fáránlega skemmtileg hátíð, þó ég segi sjálfur frá. Skemmtilegasta helgi ársins. Það er hægt að nálgast hana á svo marga vegu. Fólk getur komið og farið á bretti, það getur fylgst með brettakeppnunum og viðburðunum. Svo getur það líka chillað í góðu yfirlæti og notið þess hvað það kemur næs hópur fólks á svæðið og svo auðvitað farið á tónleikana. Þeir sem það vilja geta svo að sjálfsögðu farið alla leið í djammi og tryllingi.

Það veit ég af eigin reynslu. Hvað um það. Ef við lítum fram yfir næstu helgi, hvað er þá helst á döfinni hjá Emmsjé Gauta?

Ég er að verða faðir, svarar hann spenntur og heldur áfram: Það stendur auðvitað upp úr og skyggir á allt annað. Maður kemst ekkert á hærra spennustig en vegna þess. Það breytir öllu. En meðfram því reyni ég svo líka að gera lög sem ég mun þurfa að fela fyrir barninu einn daginn. Það er nóg í bígerð. Nú er ég að fara að gefa út nýtt lag og myndband með Frikka Dór í næstu viku. Það er drullugott. Svo er ég í rauninni búinn að vera með plötu í vinnslu í nokkra mánuði sem verður gefins. Ég ætla bara að setja hana á netið fyrir alla að njóta. Þetta tónlistarstúss er svo breytt. Um daginn gaf ég út hálfs árs gamalt lag sem singúl og fólk tók því eins og nýju, kom og hrósaði mér fyrir nýja lagið og svoleiðis. Lag sem hafði komið út á plötunni. Ég skil þetta alveg, landslagið er bara breytt. Fólk vill fá tónlistina á netinu, vill fá hana frítt. Það er fullkomlega skiljanlegt. Nú er bara mikilvægt að mæta markaðnum á miðri leið, sérstaklega fyrir listamann af minni stærðargráðu hérna á Íslandi. Ég skil það bara og bregst við þessum nýju aðstæðum.

Og þú leggur líka mikið í lifandi spilamennsku.

Algjörlega. Og í því samhengi langar mig að gefa shout out á strákana í Agent Fresco, það opnaði eiginlega nýjan heim fyrir mér að kynnast þeim. Ég er auðvitað áfram einhver popp-rapp-r&b gaur en jafnframt því fæ ég að leika hálfgerðan Fred Durst, einhvern nu-metal spaða. Það hefur verið fáránleg sprauta inn í live showið að fá þá inn í það með mér. Svo ég sé alveg hreinskilinn þá var ég eiginlega bara kominn með leið á því að spila á vissum tímapunkti. Svo kynnist ég þeim og fæ þá til að spila með mér og þetta verður í raun eitthvað alveg nýtt. Mér fór aftur að líða vel á sviði. Þeir láta mér líða vel.

Það er gott að heyra. Talandi um tilfinningar, hvert sækirðu yrkisefni? Hvað er það sem helst ræður því hvað og hvernig þú semur?

Ég held að ég skrifi til að tjá mig. Þetta eru oft hlutir sem ég get ekki sagt nema skrifa á blað og leiki mér með dálítið með orðin. Vanalega – ég myndi segja alveg í alveg 90 prósent tilfella – get ég ekki bara sest niður og skrifað lag. Kannski er maður alveg að sofna og þá poppar hugmyndin upp og ég verð að skrifa akkúrat þá. Og þessar hugmyndir sem maður verður að koma frá sér geta alveg eins verið stupid, eitthvað um djammið og einhverja vitleysu. Það bara ryðst fram. Þeir sem hlusta á mig taka eftir því að ég skrifa alltaf í fyrstu persónu. Ég er alltaf að lýsa aðstæðum sem ég hef lent í, segja frá sjálfum mér. Og svo skreytir maður. Og Gauti skýrir frekar: Sko, áramótaheitið mitt núna var að vera heiðarlegur. Fullkomlega beisik. Ekki að hætta að reykja eða drekka minna eða minnka bumbuna eða eitthvað svoleiðis, heldur bara að vera heiðarlegur. Að ljúga bara ekki. Auðvitað dregur maður oft fram tiltekin atriði – nefnir best borguðu giggin og þar fram eftir götunum. Snýr veruleikanum til að sýna tilteknar hliðar, í þessu tilfelli hans bestu hliðar? Nákvæmlega. Það er nefnilega svo leiðinlegt að vera með grímu, Atli. Mig klæjar undan grímunni.

Ég er að verða faðir, Það stendur auðvitað upp úr og skyggir á allt annað.

– Gauti Þeyr

Og hvað var það sem kveikti fyrst áhuga þessa grímulausa manns á tónlist, á því að búa sjálfur til tónlist?

Það byrjaði fyrir alvöru þannig að pabbi átti stúdíó og Addi, DJ Intro, sem er einmitt plötusnúðurinn minn núna, var meðal annars að taka þar upp. Þar kynntist ég rappi fyrst almennilega, ég hafði náttúrulega hlustað á útvarp og svona en var þarna

allt í einu meðal allra þessara rappar. Og það voru allt í einu einhvern veginn nýjir fullorðnir, ný tegund af fullorðnum og ég hugsaði með mér að mig langaði til að vera svona fullorðinn. Sem er dálítið fyndið því Addi var til dæmis sextán ára. Þegar tónlistaráhuginn var svo kviknaður fyrir alvöru fór pabbi að dæla í mig tónlist og fara með mér á tónleika, hann hefur séð Non Phixion, Loop Troop og allan fjárann – og hatar það! Gauti hlær þegar hann lýsir raunum föður síns en heldur áfram: Og á þessum tónleikum þá meira að segja kynntist pabbi minn pabba Darra Freska rappara að norðan sem var þarna af sömu ástæðum, þeir urðu rapppabbahomies.

Sé til betra orð til að ljúka viðtali en rapppabbahomies þá þekki ég það ekki og læt því gott heita. Að því sögðu þakka ég Emmsjé Gauta kærlega fyrir viðtalið og óska honum til hamingju með væntanlegt barn og gleðilegrar AK-Extreme hátíðar.

Það hefur verið fáránleg sprauta inn í live showið að fá þá inn í það með mér. Svo ég sé alveg hreinskilinn þá var ég eiginlega bara kominn með leið á því að spila á vissum tímapunkti.

– Gauti Þeyr

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing