Auglýsing

Salka Sól

„Það er sama hvort maður er svona eða hinsegin, það hefur enginn rétt til að leggja einhvern í einelti!“

Söngkona AmabAdamA, Reykjavíkurdóttirin, leik- konan, rapparinn, tónlistarmaðurinn og sjónvarps- og útvarpskonan Salka Sól Eyfeld prýðir forsíðu SKE að þessu sinni. Óhætt er að segja að Salka Sól hafi skotist upp á stjörnuhimininn á skömmum tíma. Hún er fyrirmynd annarra stúlkna og lætur engan annan ákveða fyrir sig hvað hún getur. Þessi atorkumikla og hæfileikaríka fjöllistakona með hásu, strákslegu röddina kom eins og feminískur hvirfilbylur inn í íslenskt tónlistarlíf er hún birtist fyrst sem rappandi ljónynja með Reykjarvíkurdætrum og það er óhætt að segja að hún hafi opnað dyr rappsins fyrir mörgum ungum stúlkum.

Frá því að Salka Sól lauk þriggja ára námi í London í Actor Musicianship, sem er leikaranám fyrir hljóðfæraleikara, hefur hún tekið að sér mörg og ólík verkefni á listsviðinu. Hún er sterkur persónuleiki, frjálsleg og falleg með lifandi framkomu. Það er því ef til vill erfitt fyrir suma að ímynda sér að hún hafa orðið fyrir einelti og fyrir vikið verið óörugg í upphafi ferilsins.

Við settumst niður með Sölku Sól á einum sólríkum degi yfir hádegismat og spurðum hana út í tónlistina og lífið.

Hvernig myndirðu lýsa þér sem persónu? Það er stór spurning. Ég pæli ekki einu sinni í því“ segir Salka Sól hlæjandi, hugsar sig um og svarar svo: „Ég er svolítið hvatvís, sem er kostur og galli. Þegar ég er hvatvís, hugsa ég oft já, gerum það bara. Stundum þarf ég að hafa einhvern annan, sem kannski segir heyrðu bíddu aðeins! En ég hef ýtt sjálfri mér út í ýmislegt og farið út fyrir minn þægindarramma og það er þá sem allt byrjaði að rúlla.“

Hverjir hafa verið þínir áhrifavaldar ?

„Það er alveg ótrúlega mikið af konum í tónlist sem ég lít upp til. Auðvitað Björk. Og Emilía Torrini, hún hafði alveg rosalega mikil áhrif á mig. Hún gaf út plötuna Merman sem ég fékk í jólagjöf og á þessum tíma var ég svolítið lokuð, leið ekkert svakalega vel, var ung, svona 11 ára. Ég var alltaf til staðar en ég var bara búin að bælast svo mikið útaf eineltinu. Þarna var þetta einmitt

í svona hápunkti þegar ég fékk þessa plötu. Ég hlustaði svakalega mikið á hana, og fann einmitt textabók um daginn þar sem ég var búin að skrifa allan textann á einhverri ensku sem að ég bara ein skildi, og kunni hana alveg utan að. Auk tónsmíða sinna hefur Emilíana tekið mikið af lögum eftir aðra listamenn, sem ég kynnti mér svo í framhaldi af því. Þá fór ég að sökkva mér enn meira í tónlistarsöguna; hlustaði á alls konar gamla tónlist og datt mikið inn í Tom Waits. Ég bað pabba um að kaupa fyrir mig plötur með hljómsveitum sem mig langaði að kynna mér og grandskoðaði auðvitað diska- og plötusafnið hans pabba.“

Salka Sól er dóttir leikarans Hjálmars Hjálmarssonar og Guðbjargar Ólafsdóttur, sérkennara og á tvo yngri bræður. Það er óhætt að segja að tónlistin hafi fylgt henni frá unga aldri:

„Já, ég byrjaði fjögurra ára að læra á píanó í Suzuki námi. Pabbi, aðallega pabbi, og mamma fylgdu mér í gegnum Suzuki námið, en það er mikið þannig í skólanum að foreldrarnir eru með. Ég var mjög góð, náði öllu fljótt og var með þetta í mér. Ég var rosa ung þegar mamma og pabbi föttuðu að það var greinilega mikil tónlist í mér. Svo fór ég að læra á trompet. Tónlistin hefur alltaf fylgt mér.

Mig langaði rosalega að syngja en þorði því alls ekki. Ég söng með allri þessari plötu Emilíu Torrini, kunni allt en söng bara inni í herbergi. Söng og söng fyrir fjölskylduna en ekkert fyrir utan það. Svo, á svipuðum tíma, komst ég í plötuna The Score með Fugees og æfði mig í að syngja eins og Lauryn Hill. Hún var ógeðslega flott. Mér datt ekki í hug að ég færi einhvern tíman að rappa sjálf, kannski útaf því að það var engin fyrirmynd hérna heima á Íslandi. Ég fattaði það seint hvað hún hafði mikil áhrif á mig. Sá hana í sumar spila og hún var æðisleg. Lauryn Hill er svona töffarinn í mér og Emilía Torrini mjúka hliðin. Mig langaði alveg að vera eins og Emilía Torrini. Ég sagði henni einu sinni þegar hitti hana hvað platan hennar hafði mikil áhrif á mig og hjálpað mér í gegnum mjög erfiða tíma.“

Hvað myndirðu vilja segja við ungt fólk sem þarf að þola einelti?

„Mér finnst alltaf magnað þegar fólk segir við mig: „Ha, lentir þú í einelti? En þú ert svo flott og svona og svona.“ Það er í raun alveg sama hvort maður er svona eða hinsegin, það hefur enginn rétt til að leggja einhvern í einelti! Maður er ennþá spurður af hverju lentir þú í því að vera lögð í einelti? En það er ekki mitt að svara, spurðu krakkana sem gerðu það: Af hverju ertu að leggja í einelti? Þú spyrð ekki stúlku sem var nauðgað af hverju var þér nauðgað? Var það útaf því að þú varst í svo stuttu pilsi? Nei, það er ekki ástæðan. Spurðu gerandann. Og það er ekkert sem réttlætir þetta ofbeldi! Það er alveg sama hvernig þú ert, það hefur enginn rétt á að stríða þér.“

Salka Sól segir að persónuleiki hennar hafi alltaf verið til staðar en eineltið hafi orðið til þess að hann bældist og fór í smá frí:
„Það var mjög góð tilfinning þegar ég náði í hann aftur.“

Nú hefur þú tekið að þér nýtt hlutverk í verkefni fyrir Þjóðleikhúsið, hvað máttu segja mér um það?

„Eiginlega sem minnst. Það er alveg búið að ganga frá samningum og svona en það er ennþá svolítið opið. Ég mun sjá um tónlistina og vera á sviðinu. Þetta er eitt af því sem ég hefði ekki endilega gert fyrir 5 árum, en með þessu verkefni er ég að ögra sjálfri mér. Það er einmitt það sem ég gerði með Reykjarvíkurdætrum, ég steig eitt skref út fyrir þægindarrammann og sökkti mér í það. Þannig þroskast maður sem listamaður. Maður verður að þroskast sem listamaður samhliða því að þroskast sem persóna. Það er alveg þægilegt að vera alltaf í „comfort-zoninu sínu“ en ég endist ekki lengi þar.“

Mig langaði rosalega að syngja en þorði því alls ekki. Ég söng með allri þessari plötu Emilíu Torrini, kunni allt en söng bara inni í herbergi

– Salka Sól

Salka Sól er í sambandi með Alberti Halldórssyni, leiklistarnema. En hvernig kynntust þau? Salka Sól verður eilítið feimnisleg og hugsar sig vel um áður en hún svarar.

„Hann er voða sætur. Við kynntumst í gegnum sameiginlega vini í Listaháskólanum. Ég bjó ennþá úti og kom heim í tvær vikur.“ Salka þagnar aðeins og bætir svo við: „Það er skemmtilegra að hann segi þessa sögu, því að hann varð eiginlega ástfangin strax“ segir Salka og hlær. „Hann ætlaði ekki að missa af þessu og kom strax í heimsókn til mín, helgina þar á eftir. Ég var auðvitað orðin mjög skotin í honum. Þegar ég flutti svo heim, þá bara byrjuðum við saman og búum núna á Hverfisgötunni. Þetta var allt svo eðlilegt. Við vegum hvort annað rosalega vel upp. Ég er hvatvís og svo æst og alltaf til í allt. Hann er meira svona zennaður og rólegur. Hann er frábær leikari og fyrst þorði ég ekki að leika fyrir framan hann því mér fannst hann svo góður.

En það var auðvitað bara eitthvað óöryggi. Ég er miklu meiri tónlistamaður og sagði frekar ég skal spila hérna eitthvað fyrir þig! En núna æfum við okkur oft á hvort öðru, sem er æðislegt, og gefum hvort öðru feedback.“

Salka Sól er greinilega á réttri hillu í lífinu og tekur því hlutverki að vera í sviðsljósinu af fullri ábyrgð.

„Í framtíðinni vil ég bara halda áfram að gera það sem ég er að gera í einhverju formi. Það að maður sé orðinn fyrirmynd er eitthvað sem mig langar að halda í. Það þegar mömmur og pabbar koma til mín og segja mér að dætur þeirra líti upp til mín og séu að rappa og syngja gerir mig ótrúlega glaða. Miðað við hvað mínar fyrirmyndir höfðu sterk áhrif á mig þykir mér svo vænt um að geta verið öðrum fyrirmynd,“ segir Salka Sól brosandi að lokum

Í framtíðinni vil ég bara halda áfram að gera það sem ég er að gera í einhverju formi. Það að maður sé orðinn fyrirmynd er eitthvað sem mig langar að halda í.

– Salka Sól

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing