Auglýsing

„Reynum að fanga sömu stemningu og þegar vinir setjast niður og ræða saman.“

Q&A

Aristóteles sagði að hlaðvarpið væri steypan sem þétti stundaglasið, sumsé límið sem þétti þessar litlu sprungur sem mynduðust án undantekninga í tímaglasi dagsins: þegar honum leiddist í hestakerrunni, í hringleikahúsinu eða í þeim löngu kennaralegum göngutúrum sem Sókrates dró hann stundum í. Á þessum hvimleiðu augnablikum dagsins, þar sem sandur tímans virtist renna til spillis, fannst Aristóteles best að lauma heyrnartólunum í eyrun og kveikja á góðum þætti, hvort sem takmarkið væri skemmtun eða fræðsla og við hjá SKE erum honum innilega sammála. Við hjá SKE höfum í raun afar sterkar skoðanir á hlaðvörpum og hlustum aðeins á það besta: Entitled Opinions, This American Life, Radiolab, Love and Radio, 99% Invisible o.s.frv. Einnig erum við ánægð með það að aldrei fyrr í sögu íslenskra hlaðvarpa (allavega ekki síðan á Sturlungaöldinni) hefur flóran verið jafn fjölbreytt og lifandi – og má þá nefna þætti á borð við Í ljósi sögunnar, Víðsjá, Fílalag, Kvikuna og fleiri. Sérstaklega erum við ánægð með þáttinn Hismið í hlaðvarpi Kjarnans en þar ræða félagarnir Árni Helgason og Grétar Theodórsson málefni líðandi stundar á vinalegum og oft kómískum nótum. Reglulega fá þeir einnig góðan gest í heimsókn. Fyrir nokkrum dögum síðan heyrðum við í Árna Helgasyni og lögðum fyrir hann nokkrar viðurkvæmilegar spurningar.

Ef þú yrðir að lýsa sjálfum þér eins og húsgagni í vönduðum IKEA bæklingi – hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Billy-hillan. Laus við prjál og mikla hönnun en er praktísk og með drjúgt notagildi.

Hvern styður þú til embættis forseta Íslands? (Spurt áður en Davíð bauð sig fram og Óli hætti við að hætta við að hætta)

Á þessum gáfuðu og kaldhæðnu tímum reynir maður náttúrulega að forðast að henda sér á „band-wagon-inn“ hjá einhverjum einum aðila og vill frekar bara reyna að vera með sniðugar vangaveltur. Ég hélt alltaf að Ólafur Ragnar myndi vinna þetta en eftir “No, no, no, no” mómentið hjá Ólafi og Dorrit hallast ég að því að Guðni taki þetta. En maður mótsins verður alltaf Texas-Maggi.

Ef þú værir suðurríkjaprestur, hvert væri þitt helsta baráttumál?

Að fá Bryndísi Ásmundsdóttur framselda til Suðurríkjanna.

Hvert er „elevator pitch“ Hismis? (þ.e.a.s. stutt söluræða um ágæti þáttarins):

Hugsunin var bara að reyna að ná sömu stemningu og þegar vinir og kunningjar setjast niður og ræða saman, ekki móralíseringar eða „agenda,“ heldur bara létt og skemmtilegt.

Hvað hugsar þú um þegar þú ert andvaka kl. 4 um nótt og það er rigning úti?

Þá er ég farinn að glíma við einhvern massívan „thinker.“ Skil einn slíkan eftir hér fyrir lesendur: Ef síamstvíburi, sem er fastur við bróður sinn á mjöðm, fremur morð á meðan hinn var sofandi, hvernig á að kveða upp refsingu í málinu?

Uppáhalds „podcast“?

Mörg góð: Útvarp Ísafjörður, Fílalag, Englaryk, Tæknivarpið og Markaðsvarpið. Úti er það Serial og NBA-podcöst, t.d. Bill Simmons.

Ef þú yrðir að velja áletrun á grafsteininn þinn, hver yrði sú áletrun?

Ég fór með þetta í alútboð og strákarnir í Graníthöllinni voru graðastir. Þeir ráðstafa þessu plássi, selja nokkrar auglýsingar og gera eitthvað gott með þetta.

Hver er helsta ógn sem steðjar að mannkyninu?

Er ekki helsta ógnin og kannski í leiðinni helsta von okkar, hvað við erum orðin örugg um að þetta reddist allt saman? Ég er t.d. alveg farinn að treysta á að Elon Musk eða einhver álíka verði búinn að setja eitthvað upp á Mars þegar þetta endanlega klárast hér á jörðinni.

Uppáhalds tilvitnun / „one liner“?

„Haldiði öll kjafti.“ Virkur í athugasemdum lét þetta gullkorn falla á dögunum.

Hefur lífið tilgang? Og ef svo er, hver er tilgangurinn?

Hér er hætta á að maður fari að hljóma annað hvort eins og ofur-motivational status á Facebook sem markþjálfar deila eða þunglyndur unglingur. En er þetta ekki allt til einhvers, maður reynir að standa sig, elska náungann, gefa af sér, njóta og vonar svo það besta?

SKE mælir með Hismið í hlaðvarpi Kjarnans.

https://kjarninn.is/hladvarp/hismid/hismid-midaldra…

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing