Tvíeykið JóiPé og Króli sendu frá sér lagið O Shit á Spotify í dag (1. júlí). Lagið pródúseraði Þormóður Eiríksson og fæddist það á einum og hálfum tíma á Ísafirði.
Í viðtali við SKE fyrr í vikunni lýsti Króli tilurð lagsins með eftirfarandi orðum:
„Við heyrðum taktinn og fannst hann ekki alveg vera í okkar ,stíl’ en hann var bara svo góður að við slógum til. Við rissuðum nokkra ,bars’ niður og tókum þetta upp. Í raun má segja að fyrsta hlustunin hafi ekki verið langt frá lokaútkomunni. Þetta er svona ,spondant singúl’ sem verður að finna á plötu sem kemur út í lok sumars. Þetta er fyrsta lagið sem við gefum út eftir plötuna Ananas. Þetta lag er svolítið frábrugðið því sem við höfum verið að gera – en samt sem áður við, bara á allt öðru ,level-i.’ Við erum búnir að þroskast sem tónlistarmenn á mjög stuttum tíma og við vitum nákvæmlega hvað við viljum gera og mun það skína í gegn á næstu plötu.“
– Króli
Í lokin bætti Króli því við að aðdáendur megi búast við myndbandi við annað lag von bráðar. Einnig hefur tvíeykið verið að vinna með fullt af skemmtilegum listamönnum og mun afraksturs þessa samstarfs líta dagsins ljós á komandi vikum.