Fréttir
Síðastliðinn 18. janúar birti fréttamiðillinn Quartz ofangreint myndband á Youtube-rás sinni þar sem íslenskan er til umfjöllunar.
Myndbandið hefst með því að ungur íslenskur bölsýnismaður spáir fyrir útrýmingu íslenskrar tungu—og þá á næstu tveimur áratugum: „Eftir 20 ár mun enginn tala íslensku,“ mælir pilturinn af mikilli sannfæringu.
Í myndbandinu ræðir blaðakonan Caitlin Hu meðal annars við Jóhannes Sigtrygsson á málræktarsviði Árnastofnunnar sem undirstrikar mikilvægi þess að íslenskan þróist samhliða öðrum iðnaðargreinum:
„Þetta (sumsé málræktarsviðið) er í raun vígvöllurinn; um leið og íslenskan dregst aftur úr—hvað orðaforði mikilvægra greina varðar—fer fólki að finnast tungumálið ófullnægjandi. Þegar það gerist verður þetta tómstundariðja frekar en tungumál.“
– Jóhannes Sigtryggsson
Í myndbandinu eru orðsifjar orðsins tölva meðal annars rædd: tölva er myndað út frá orðunum völva og tala (eins og margur veit), og—eins og Hu bendir réttilega á—nota Íslendingar orðið í dagleglu tali. Þetta gefur kannski til kynna að viðleitni íslenskra stjórnvalda til að nútímavæða íslenska tungu sé að skila árangri. Vandamálið sé þó að til þess að tungumál dafni í dag þurfa vélarnar að tala tungumálið líka. Í ljósi þess að það sé svipað dýrt að forrita hugbúnað á íslensku og ensku—og að markaður hins síðarnefnda sé þeim mun stærri—sjái fæst erlend stórfyrirtæki hag sinn í því að framleiða hugbúnað á íslensku (Siri og Alexa bjóða t.d. ekki upp á íslenska stillingu).
Nánar: https://www.arnastofnun.is/page…
Myndbandið lýkur á eftirfarandi ályktun Hu: „Íslendingar gera sér grein fyrir því að ef íslenskan á að komast lífs af verður tungumálið að teygja sig handan landamæranna—svo að íslenskan eigi þátt í stafrænu samtali alþjóðar.“