Viðtöl
SKE: Árið 1662 var Kópavogsfundurinn haldinn á Kópavogsþingi. Markmið fundarins var að fá Íslendinga til að samþykkja, að evrópskri fyrirmynd, erfðaeinveldi Danakonungs (Torstenson stríðinu milli Dana og Svía var þá nýlega lokið). Samkvæmt samningnum myndi danska konungsvaldið ganga sjálfkrafa í arf, án samþykkis fulltrúa þeirra þjóða sem tilheyrðu Danmörku. Sagan segir að Árni Oddsson lögmaður hafi undirritað samninginn tárvotum augum (afleiðingarnar voru þær að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa gildi án sérstaks samþykkis Alþingis Íslendinga)—en nú er öldin önnur. Þremur og hálfri öld síðar, verður annar „Kópavogsfundur“ haldinn í Salnum í Kópavogi. Þar munu Svíar, Danir og Íslendingar fyrirhittast á sviði—en þá undir mun gleðilegri aðstæðum, sumsé til þess að gera rappmenningu hátt undir höfði. Fram koma Cell7, Huginn, Herra Hnetusmjör, BlazRoca, Lilla Namo, Raske Penge og Iris Gold. Í tilefni tónleikanna hafði SKE samband við Erp Eyvindarson—einnig þekktur sem BlazRoca—og forvitnaðist nánar um tónleikana og tónlistina. Gjörið svo vel.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Erpur Eyvindarson
SKE: Sæll og blessaður (Bleisaður), hvað segirðu þá?
Blaz: Noddalegur bara, veislaður, bleisaður og fleisaður! En alls ekki meisaður, teisaður og fríbeisaður. Bara alls ekki.
SKE: Ýmis málefni hafa verið okkur ofarlega í huga síðastliðin misseri, þar á meðal hlýnun jarðar, gervigreind, skaðleg áhrif snjallsíma á athyglisgreind ungmenna, o.fl. Þú hefur verið þekktur fyrir frjóa hugsun; hvaða viðfangsefni eru þér hugleikin þessa dagana?
Blaz: Ég var að fá mér svart klósett.
SKE: Á morgun, laugardaginn 19. janúar, stígur Blaz á svið í Salnum í Kópavogi ásamt öðru íslensku og norrænu tónlistarfólki. Hvernig komu þessir tónleikar til?
Blaz: Salurinn í Kópavogi er búinn að vera með landsliðið í öllum andskotanum að gera þvílíka hluti á öll hljóðfæri mannkynssögunnar. En það hefur ekki farið mikið fyrir rappi, hipphoppi, reggí og sálartónlist. Það verður þvílíkt bætt úr því á laugardaginn—og það er ekki einu sinni aldurstakmark. Það er örsjaldan í dag sem börn fá tækifæri til að heyra eitthvað annað en Latabæ, Fortnite sándtrakkið, prumpið í sjálfum sér og hljóðið þegar þú opnar kókómjólkurfernu handa þeim. Hryssingslega. Núna er opið hús! Leyfið börnunum að koma til Kóp!
Miðar á tónleikana: https://menningarhusin.kopavog…
SKE: Í því samhengi: Það er ómögulegt að fylgjast með öllu því sem er í gangi í rapptónlist, víðs vegar um heiminn, í dag. Hvað ert þú að hlusta á þessa dagana—og hvað ertu EKKI að hlusta á?
Blaz: Ligg yfir mínum manni, soundclash kóng, RubaDub Sunday fés og reggí trýni Raske Penge; ensk-dönsku dívunni Iris Gold; og sænska veislukettinum Lilla Namo, sem eru einmitt öll að spila á laugardaginn í Salnum í Kópavogi. Skemmtileg tilviljun.
SKE: Margir eru eflaust EKKI að hlusta á R. Kelly um þessar mundir. Þó svo að við tölum stundum fyrir aðskilnaði listamanns og listar (förum ekki út í forsendur þess hér) þá trompar ónotatilfinningin tónlistina, hvað Kelly varðar. Hvernig horfir þetta mál við þér?
Blaz: Ég hafði alltaf gaman af R. Kelly—en samt meira svona eins og að horfa á gíraffapóló eða horfa á eitthvað Bollywood rugl. Gæinn hefur alltaf verið strop og einhvern veginn efni í svo margar félagsfræðirannsóknir.
SKE: Er ekki býsna langt um liðið síðan Blaz gaf út nýtt efni? Mega aðdáendur vænta nýs efnis bráðlega?
Blaz: Það er von á rosalegri veislu fljótlega. Sturlað tjúll! Fylgist með!
SKE: Þá er kannski ekki úr vegi að spyrja: Hyggjast Rottweiler-hundarnir grípa í hljóðnemann á næstunni?
Blaz: Við erum að spara okkur rosalega þessa dagana. Liggjum í bómul og notó.
SKE: SKE ræddi nýverið við tvíeykið kef LAVÍK. Eitt af því sem var til umræðu var hversu takmörkuð textagerð ungra lagasmiða er í dag. Sem mikill orðsins maður: Finnst þér textasmíð ungra rappara ábótavant?
Blaz: (Blaz hlær). Það er svolítið mikið upp og niður. Svolítið mikið niður oft. Og stundum auðvitað rosalega mikið mikið niður. En það er alls konar notó í gangi líka. Margt mjög hressandi. Smekkur er líka svo mismunandi. Sumir vilja bara fríbeisa 95 oktan. Maður verður að leyfa fólki að hafa gaman af alls konar kjaftæði.
SKE: Textahöfundur kef LAVÍK viðurkenndi jafnframt, í umræddu viðtali, að þeir væru báðir frjálshyggjumenn: „Ég trúi á eignarétt á umhverfisauðlindum og að þær eigi að vera nýttar. Ég álít annað fólk ekki eiga tilkall í þá peninga sem ég bý til.“ Þú gerir væntanlega athugasemd við þessa röksemdafærslu?
Blaz: Kef LAVÍK eru fellós og hressandi tónlistarmenn. En þeir verða að hætta að fríbeisa bensín á virkum.
SKE: Á að seinka klukkunni?
Blaz: Mér er drull, veit aldrei hvað klukkan er hvort eð er.
SKE: Að lokum: Komumst við upp úr milliriðli á HM?
Blaz: Andskotinn.
SKE: Vilt þú bæta einhverju við?
Blaz: Sé ykkur í Salnum í Kópton!
(SKE þakkar Erpi kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að láta sjá sig í Salnum í Kópavogi á morgun.)