Auglýsing

„Þið eruð svo miklu myndarlegri í eigin persónu.“—SKE spjallar við Margréti Rán í Vök

Viðtöl

SKE: Í fyrra birti ritstjórn SKE grein á vefsíðu sinni þar sem vinsælustu lög íslensks tónlistarfólks á Spotify voru til umfjöllunar. Þá kom lagið „Before“ eftir íslensku hljómsveitina Vök við sögu í greininnií dag hafa notendur Spotify spilað lagið rúmlega 7 milljón sinnum. Vök var stofnuð árið 2013 í Reykjavík af þeim Andra Má Enokssyni og Margréti Rán Magnúsdóttur og bar sveitin sigur úr býtum í Músíktilraunum sama ár. Í dag samanstendur sveitin af fyrrnefndri Margréti Rán, ásamt þeim Einari Hrafni Stefánssyni og Bergi Einari Dabjartssyni. Í tilefni þess að sveitin fagnar útgáfu plötunnar „In the Dark“ næstkomandi 22. mars í Iðnó hafði SKE samband við Margréti Rán, söngkonu sveitarinnar, og forvitnaðist um lífið og listina (Vök treður einnig upp á Græna hattinum, í svipuðum erindagerðum, þann 23. mars). Gjörið svo vel. 

Viðtal: RTH

Viðtal: Margrét Rán

SKE: Það er Evróputúr á döfinni þar sem þið spilið í fjölmörgum löndum. Eruð þið spenntari fyrir einhverju einu landi umfram öðru?

Margrét Rán: Við erum að fara á frekar svipaðar slóðir og áður. Þó eru þarna staðir sem við höfum aldrei spilað á. Við höfum t.d aldrei spilað í Stokkhólmi—það verður gaman að sjá hvaða fjör verður úr því. Svo er alltaf gaman að fara til Austur-Evrópu: fallegar byggingar og öðruvísi menning.

SKE: Þið hafið einmitt verið mjög dugleg við spileríið síðastliðin misseri. Úr því er ekki úr vegi að spyrja: Eru einhverjir tónleikar eftirminnilegri en aðrir?

MR: Það var alveg ruglað að hita upp fyrir Editors í nóvember! Við spiluðum í risatónleikahöllum og þeir stjönuðu alveg við okkur. Þetta eru ótrúlega fínir piltar og gott teymi. Við eignuðumst líka fullt af nýjum aðdáendum sem bíða spenntir eftir næstu tónleikum.

SKE: Næstkomandi 1. mars gefið þið út hljóðversplötuna In the Dark. Hvaða þýðingu hefur titill plötunnar?

MR: Platan byrjar sumsé á laginu In the Dark. Lagið fjallar um að sigrast á óttanum. Ég var alltaf svo myrkfælin þegar ég var yngri og er það alveg örlítið í dag—lýg því ekki. Það er alveg ótrúlegt hversu öflugt ímyndunaraflið er í myrkrinu; maður býr næstum til einhverskonar verur í hausnum á sér. Kannski sé ég bara drauga eftir allt saman? Eins og ég segi fjallar lagið um að takast á við óttann og að láta ekki eitraðar hugsanir ráða för. Platan endar svo á lagi sem heitir Out of the Dark.

SKE: Hver er helsti munurinn á In the Dark og Figure?

MR: In the Dark er töluvert aðgengilegri en Figure, bæði hvað varðar hljóm og texta, myndi ég segja. Það er hraðara tempó á nýju plötunni og hún er meira groovy. Þá eru textarnir á In the Dark töluvert persónulegri, á meðan Figure fjallaði meira um tilfinningar almennt.

SKE: Verða þau lög sem þið gáfuð út í fyrra—Autopilot, Spend the Love, Night & Day—að finna á plötunni?

MR: Þokkalega.

SKE: Spend the Love hefur einmitt verið í miklu uppáhaldi hjá SKE frá því að það kom út. Hvernig kom lagið til og hvernig var ferlið?

MR: Upprunalega samdi ég Spend the Love sem einskonar gay anthem—og það átti í raun aldrei að rata út fyrir hátalara hljóðversins. Einar dýrkaði það hins vegar svo mikið að við ákváðum að breyta textanum og gerðum eitt stykki singúl. Einar samdi bullandi groovy bassalínu í takt við hljóðgervlana og taktinn, sem ég var búin að semja áður. Svo fengum við Berg í trommu-session. Í kjölfarið fórum við til Lundúna og kláruðum að taka upp restina með James, sem pródúseraði plötuna með okkur.

SKE: Þið fagnið útgáfu plötunnar næstkomandi 22. mars í Iðnó (platan sjálf kemur út 1. mars). Í því samhengi—og í ljósi þess að við vorum að lesa mjög svo skemmtilegan þráð á Reddit, þar sem notendur lýstu sinni verstu tónleikaupplifun—hvað eru verstu tónleikar sem þið hafið sótt?

MR: Við vorum að spila á ónefndum stað í Bandaríkjunum á undan annarri hljómsveit. Eftir u.þ.b. hálft sett þá hvarf svona 80% af salnum og það fór ekkert alltof vel í söngkonuna. Hún ákvað því að skella í eftirfarandi setningu: „Thank you all for coming out to this joke event.“ Ég byrjaði að svitna í lófunum og gekk í burtu. Ég segi ekki hvaða hljómsveit þetta var—en þetta var glatað (Margrét hlær).

Reddit: https://www.reddit.com/r/AskRe…

SKE: Meðlimir Vakar drekka, höfum við heyrt, mikið kaffi. Hvar er besta kaffið og hvar er best að sötra það?

MR: Besta kaffið á Íslandi er á Kaffi Pallett og á Reykjavík Roasters. Kaffi Pallett er uppáhalds kaffihúsið mitt. Þetta er kósý staður, með krúttlegu og jákvæðu starfsfólki, sem býður upp á gott kaffi. Svo er kaffihúsið að sjálfsögðu í hjarta Hafnarfjarðar, þar sem ég bý. Fullkomið.

Besta kaffið sem ég hef samt smakkað er Blue Bottle. Það er á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum—það er í ruglinu. Vök ætti í raun og veru að vera á prósentum hjá þessu fyrirtæki. Just sayin …

SKE: Hlýnun jarðar er okkur ofarlega í huga þessa dagana: vonleysi, ráðaleysi og lömun einkennir gjarnan afstöðu okkar til málefnisins. Sumt tónlistarfólk hefur beinlínis hætt að fljúga til þess að minnka kolefnissporið, sem er nánast ómögulegt fyrir íslenskt tónlistarfólk. Hvernig horfir þetta við þér? Hvað er til ráða?

MR: Já, þetta er ótrúlega erfitt og vonlaust fyrir íslenskt tónlistarfólk. Ég hef hugsað mikið út í þetta og réttast væri, þannig séð, að flytja eitthvert annað—sem hefur svo sem alltaf verið draumurinnn. Þar sem ég elska Hafnarfjörðinn aftur á móti … úfff. En það er klárlega eitthvað sem er þess virði að skoða.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra og hvers vegna?

MR: Coconut Kiss með Niki and the Dove! Það er bara eitthvað við það. Það lætur mig brosa og syngja hástöfum á meðan ég keyri:  

Swinging in my palm tree /
Cause I love coconuts /
I’m drinking Coconut Kiss /
And you don’t get to know me /
You don’t get to know me  /

Svo kemur rautt ljós. Ég hætti að syngja og lækka í laginu því það eru bílar í kring. Svo kemur grænt ljós og ég hækka og byrja að syngja aftur með. Tengiðið?

SKE: Elton John spilaði lagið Autopilot í útvarpsþætti sínum Rocket Hour í fyrra. Það hefur væntanleg verið mikill heiður. Burt séð frá því: ef þið yrðuð að pitch-a hljómsveitina með örstuttri lyfturæðu—hvernig myndi sú ræða hljóða?

MR: Veto eins og Rachel og Ross vinir mínir sögðu.

SKE: Um daginn fjallaði SKE um tónleika Vakar í KEXP—sem voru jafnframt frábærir. Yfirskrift greinarinnar vísaði í hnyttna athugasemd á Youtube: „This really Vöks for me.“ Hvað er eftirminnilegasta hólið sem þið hafið fengið?

MR: Manneskja sem hóaði í okkur eftir tónleika í Toronto sagði, „You guys look so much hotter in person than in your photos.“ Það var fyndið.

„This band is a gift to humanity.“—Youtube

„My Gawd, are all the members models or what?“—Youtube

SKE: Að lokum: Á Vök í vök að verjast?

MR: Nei, nei. Vök er bara á góðum stað.

(SKE þakkar Margréti Rán kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að tryggja sér miða á útgáfutónleika Vakar næstkomandi 22. mars í Iðnó og 23. mars á Græna hattinum.)

Miðar: https://tix.is/is/event/7334/v…

Ísland á Spotify, vinsælustu lögin: https://ske.is/grein/islensk-to…

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing