Fréttir
Í grein sem birtist á vefsíðu Huffington Post í dag er greint frá því að Donald Trump forseti Bandaríkjanna hafi undirritað forsetatilskipun umkringdur
hvítum karlmönnum í Hvíta húsinu. Samkvæmt höfundi greinarinnar mun umrædd
tilskipun hafa mikil áhrif á aðgang kvenna að heilbrigðisþjónustu um allan heim.
Tilskipunin endurvekur hina svokölluðu Mexico City stefnu („Mexico City Policy“) sem Ronald Reagan kom á fót árið 1984 en stefnan bannar bandaríska ríkinu að styrkja alþjóðlegar stofnanir sem veita ráðgjöf varðandi fjölskylduáætlanir og frjósemisheilbrigði ef viðkomandi stofnun styður eða framkvæmir fóstureyðingar – jafnvel þó að fjármununum sé ekki varið í þjónustu sem tengist fóstureyðingum beint.
Árlega styrkir bandaríska ríkið alþjóðlegar stofnanir af þessum toga með u.þ.b. 600 milljón dollara framlagi en talið er að slík þjónusta tryggi 27 milljónum kvenna um allan heim aðgang að getnaðarvörnum.
Ekkert af þessu fé er þó notað beint til þess að framkvæma fóstureyðingar þar sem Helms breytingin („Helms Amendment“), sem lögleidd var árið 1973, kemur í veg fyrir það að opinberum fjármunum sé varið í fóstureyðingar erlendis. Stuðningsmenn Mexico City stefnunnar telja hins vegar að Helms breytingin gangi ekki nógu langt.
Mun þetta jafnframt vera ein af fyrstu tilskipununum sem Trump undirritar eftir að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna síðastliðinn 20. janúar. Eins og sjá má á ljósmyndum sem teknar voru af undirritun Trumps voru fáar eða engar konur viðstaddar.
Höfundur greinarinnar bætir því við að forsetatilskipun Trumps kunni að hafa alvarlegar afleiðingar og gæti jafnvel verið banvæn fyrir konur og stelpur í þróunarríkjum sökum þess að þær taki oft málin í eigin hendur þegar aðgangur að fagaðilum sem framkvæma fóstureyðingar er ekki til staðar. WHO (World Health Organization) áætlar að 21 milljón kvenna gangist undir fóstureyðingar framkvæmdar af ófaglærðum aðilum í þróunarríkjum árlega en talið er að þesskonar aðgerðir orsaki u.þ.b. 13 prósent af andlátum mæðra.
Mexico City stefnan er innleidd og dregin til baka á víxl eftir því hvaða flokkur er við völd í Bandaríkjunum hverju sinni: Bill Clinton og Barack Obama felldu stefnuna úr gildi en þess á milli endurvakti George W. Bush hana þegar hann tók við embættinu.
Í greininni kemur einnig fram að ekkert ráðuneyti frá valdatíð Ronalds Reagans telji jafn marga hvíta karlmenn eins og ráðuneyti Trumps.
Nánar: https://www.huffingtonpost.com/entry/donald-trump-abortion-men_us_5886369be4b0e3a7356a7910?