Í bílnum
Nýverið fór SKE á rúntinn með tónlistarmanninum Auði en rúnturinn var liður í nýrri myndbandsseríu SKE sem ber titilinn Í bílnum (sjá hér fyrir ofan).
Tilefni rúntsins – ef hægt er að tala um slíkt – var útgáfa lagsins I’d Love en myndbandið við lagið hefur vakið mikla athygli meðal notenda Youtube og þá aðallega vegna þess hversu frumlegt myndbandið þykir; í myndbandinu, sem sjá má hér fyrir neðan, virðist söngvarinn beinlínis vera undanþeginn lögmálum þyngdaraflsins.
Hafa starfsmenn SKE velt því fyrir sér hvernig þessi sjónhverfing var framkvæmd og tjáði Auður blaðamanni að hið sama væri uppi á teningnum hjá mörgum vinum hans og vandamönnum:
„Það hefur verið mjög gaman að heyra hinar ýmsu tilgátur um hvernig var farið að þessu. Það er ógeðslega fyndið að vera í kaffiboðum nú til dags og fólk kemur upp að manni og spyr: ,Bíddu, er þetta ekki örugglega þannig að …’ Það er ýmislegt rugl sem fólk kastar fram.“
– Auður
Aðspurður hvaða einstakling hann væri helst til í að pikka upp og peppa (Auði blöskraði spurningin Hvern langar þig helst til þess að keyra yfir?) sagðist hann vilja fara á rúntinn með Góða Úlfinum. Einnig hrósaði hann söngvaranum Högna fyrir plötuna Two Trains sem hinn síðarnefndi gaf út síðastliðinn 20. október á Spotify.
(Myndbandið við lagið Græða peninginn eftir Góða Úlfinn rataði inn á Youtube fyrir rúmum mánuði síðan og hefur þegar verið skoðað rúmlega 150.000 sinnum.)