Í sumar verður blað brotið í sögu tónlistar þegar söngkonan og rapparinn Missy Elliott fær inngöngu í frægðarhöll lagasmiða (Songwriters Hall of Fame)—fyrst kvenrappara.
Þá er Elliott jafnframt þriðji rapparinn til þess að njóta þess heiðurs; rapparinn Jay-Z var vígður inn í frægðarhöll lagasmiða árið 2017 og rapparinn og taktsmiðurinn Jermaine Dupri árið 2018.
Athöfnin fer fram á Marriott Marquis hótelinu í New York ríki í Bandaríkjunum næstkomand 13. júní. Cat Stevens, John Prine, Dallas Austin, Tom T. Hall og Jack Tempchin fá einnig inngöngu inn í höllina.
Nánar: https://hypebeast.com/2019/1/m…
Ferill Missy Elliot hófst undir lok níunda áratugsins og þá sem meðlimur R&B hljómsveitarinnar Sista (áður Fayze). Æskuvinur Elliott, Timbaland (Timothy Mosley), sá um taktsmíð fyrir sveitina.
Eftir að hafa sagt skilið við samlistarhópinn Swing Mob—sem DeVante Swing úr hljómsveitinni Jodeci stofnaði—nokkrum árum síðar hófu Elliott og Timbaland að semja lög og takta fyrir aðra listamen á borð við SWV, 702, Total og Aaliyah.
Missy Elliott gaf út plötuna Supa Dupa Fly árið 1997 og vakti platan, sem og tónlistarmyndbönd plötunnar undir leikstjórn HYPE WILLIAMS, mikla athygli. Síðan þá hefur Elliott unnið til fjögurra Grammy-verðlauna og selt yfir 30 milljón plötur í Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingaveitunni Nielsen SoundScan hefur enginn kvenrappari selt fleiri plötur í sögunni.
Nánar: https://www.newyorker.com/cult…
Frægðarhöll lagasmiða var stofnuð árið 1969 af þeim Johnny Mercer, Abe Olman og Howie Richmond. 461 lagasmiður hefur verið vígður inn í höllina síðan þá, þar á meðal Bob Dylan, Elton John, Marvin Gaye, Billy Joel og Stevie Wonder.