Hljómsveitin TLC var stofnuð árið 1991 í Atlanta, Georgia af þeim Tionne „T-Boz“ Watkins, Lisa „Left Eye“ Lopes og Rozonda „Chilli“ Thomas. Frá stofnun sveitarinnar hefur þríeykið selt yfir 65 milljón platna og gefið út fjögur lög sem hafa klifrað upp í fyrsta sæti vinsældalista Billboard: Creep, Waterfalls, Unpretty og No Scrubs.
15 ár eru liðin frá útgáfu síðustu plötu TLC, 3D, sem kom út árið 2002 en það var jafnframt árið sem rapparinn Lisa „Left Eye“ Lopes féll frá í bílslysi í Honduras við tökur á heimildarmynd sem var síðar gefin út undir yfirskriftinni The Last Days of Left Eye.
Næstkomandi 30. júní hyggst sveitin gefa út sína hinstu plötu, TLC, og í tilefni þess gáfu þær T-Boz og Chilli út myndband við lagið Way Back í gær (6. júní) sem jafnframt skartar hinum geðþekka Snoop Doog (sjá hér fyrir ofan).
Þess má einnig geta að hljómsveitin TLC hefur afhjúpað fleiri lög á plötunni nýverið, þar á meðal It’s Sunny og Haters (sjá hér fyrir neðan).