Auglýsing

Rapparinn Smádæla gefur út lagið „Fiðrildahurðir“

Í íslenzkri þýðingu

Fiðrildahurðir: /
Tveggja manna bifreiðin,
Svipar helst til geimfars /
 

Þannig hefst texti lagsins Fiðrildahurðir („Butterfly Doors“) eftir bandaríska rapparann Smádælu (Lil Pump). 

Lagið verður að finna á plötunni Uppgjafarnemi úr Harverd* („Harverd Dropout“) sem er væntanleg í ár. 

Líkt og fram kemur í ítarlegri greiningu á vefsíðunni Genius snýr viðfangsefni textans að sérkennum sumra vélknúinna ökutækja:

„Í laginu stærir Smádæla sig af bifreið, sem býr yfir því sérkenni, að hurðir þess opnast upp—en ekki út (sumsé lóðrétt), sem er jafnframt eiginleiki margra lúxusbifreiða. Hurðir þessar eru iðulega kallaðar fiðrildahurðir, þar sem þær þykja svipa sterklega til fiðrilda (ættbálkur skordýra, með tvö pör hreistraðra vængja).“

Nánar: https://genius.com/Lil-pump-bu…

Þess má geta að smávægileg breyting er á upprunalegri framsetningu textans: búið er að eyða nafni kínverska körfuboltamannsins Yao Ming í laginu, eftir að rapparinn var vændur um rasisma:

Ég reyki fíknilyf / 
Er gjarnan kallaður Yao Ming
Því ég verð svo skakkeygður (Ching Chong) / 

Vægast sagt skammarlegt tungutak hér á ferð. 

Nánar: https://www.spin.com/2019/01/l…

Kínverski rapparinn Lil Yijie brást til að mynda ókvæða við ofangreindum línum og samdi níðlag tileinkað Smádælu (sjá hér að neðan). 

Í þessum rituðu orðum situr lagið í 37. sæti Spotify yfir þau lög sem eru hvað vinsælust meðal íslenskra notenda streymiveitunnar. Rapparinn er á mála hjá Vernharðsbræðrum (Warner Bros.).

* Rapparinn neyddist til þess að stafa Harvard með e-i, í kjölfar kæruhótana.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing