Auglýsing

Secret Solstice Upphitun #1 – Arkir snúa aftur

Eitt vanmetnasta lag íslensku rappsögunnar er, að mati undirritaðs, lagið Handsprengjufönk eftir hljómsveitina Arkir (sjá hér fyrir neðan). Lagið kom út árið 2005 og átti það að rata á plötuna 7, 9, 13 – en platan kom þó aldrei út. Lagið pródúseraði Addi Intro og var það Byrkir B sem sá um textann (en saman mynda þeir fyrrnefnda hljómsveit). 

Aðdráttarafl lagsins er margþætt: dansandi trommurnar, djasskennda bassalínan, kraftmikla viðlagið og óheflaða flæðið spila saman til þess að skapa óhlýðinn hljóðheim – sem jafnframt fangar anda rapps vel, og það í sinni tærustu mynd.

Eflaust höfðu margir aðdáendur þessa ágæta tvíeykis afskrifað mögulegt afturhvarf sveitarinnar í ljósi þess að ansi mörg ár höfðu liðið frá því að Arkir sendu frá sér nýtt efni (tvö ár eru liðin frá útgáfu lagsins Orð, Já með rapparanum 7berg) en enn er
líf í gömlum hundum; í gær birti rapparinn Byrkir B myndband á Facebook síðu
sinni þar sem hann og Addi Intro hlýða á ljúfa tóna í ótilgreindu hljóðveri ásamt
rapparanum 7berg (sem er nú formlega genginn til liðs við sveitina). Eftirfarandi texti fylgdi myndbandinu: 

„Er súper ,stoked’ yfir nýja Arkir efninu! Lagasmíðar sjá um sig sjálfar og upptökur ganga einsog herramenn sveipaðir skikkjum. Gaddem. Styttist í fyrsta ,single.’ Sjáumst á Solstice.“

– Birkir Björns Halldórsson

Arkir stígur á svið laugardaginn 17. júní í Fenrir kl.18:50 samkvæmt dagskrá Secret Solstice sem var birt í gær. Ásamt því að bíða spennt eftir nýja efninu er SKE einnig spennt fyrir að heyra lögin Handsprengjufönk og Orð, Já í lifandi flutningi.

Þess má einnig geta að Addi Intro og Byrkir B tilheyra hljómsveitinni Forgotten Lores (eins og flestir eflaust vita) en FL tróð upp á Kex Hostel um daginn undir yfirskriftinni Rappport (sem Kex Hostel hélt í samstarfi við Red Bull Music Academy). Fyrir tónleikana kíkti Byrkir B í útvarpsþáttinn Kronik ásamt Class B og rappaði hann meðal annars yfir lagið Overnight Celebrity eftir Twista og Kanye West (sjá hér fyrir neðan).

Áhugasamir geta fylgst með hljómsveitinni hér: https://www.facebook.com/arkir…

Einnig á Soundcloud: https://soundcloud.com/arkir-1

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing