Viðburðir
Fyrir stuttu tilkynntu forsvarsmenn Stage Dive Fest að fjórðu hljómleikar tónleikaraðarinnar færu fram næstkomandi 9. júní á Húrra en síðastliðna mánuði hefur hátíðin hlotið góðar viðtökur meðal gesta; segja má að markmið hátíðarinnar sé að sameina allt það ferskasta úr íslensku Hip-Hop senunni á einu sviði.
Frá því að tónleikaröðin hóf göngu sína í fyrra hafa fjölmargir tónlistarmenn komið fram, þar á meðal Dadykewl, Alvia, Egill Spegill, Auður, kef LAVÍK, Black Pox, Geisha Cartel, Birnir, BNGR BOY, 101 Savage, Mælginn, Lord Pusswhip, Geimfarar, Smjörvi & HRNNR.
Í þetta sinn er dagskráin ekki af verri endanum:
„Júní er sá mánuður sem maðurinn lætur sjá sig sem mest úti á skemmtanalífinu, við hjá Stage Dive Fest ætlum að bregðast við því með því að halda tvenna tónleika í júní … tónleikaþyrstir gestir mega gleðjast enda er fyrsta kvöldið ekki af verri endanum því Cyber, GKR, Huginn, Krabbamane, Icy-G & Hlandri munu troða upp …“
– Fréttatilkynning frá Stage Dive Fest
Nánar: https://www.facebook.com/event…
Hér fyrir neðan má heyra brot af því sem vænta má næstkomandi 9. júní.
GKR
Vart þarf að kynna GKR fyrir landsmönnum en rapparinn hefur getið sér gott orð með lögum á borð við Morgunmatur, Meira og Tala um. Uppáhalds lag SKE er hins vegar lagið Treysta mér sem finna má á EP plötu sem kom út í fyrra og sem heitir í höfuðið á rapparanum sjálfum.
CYBER
CYBER (sem rekur rætur sínar til Reykjavíkurdætra) er samstarfsverkefni Sölku Valsdóttur og Jóhönnu Rakelar sem rappa undir nöfnunum Bleach Pistol og Junior Cheese. Tvíeykið gaf út EP plötuna BOYS síðastliðinn 1. janúar. Ekki er langt síðan að þær Salka og Jóhanna kíktu við í útvarpsþáttinn Kronik ásamt hluta af Reykjavíkurdætrum og fluttu lagið Ef mig langar það í beinni.
ICY G & HLANDRI
Síðastliðinn 9. maí sendu rappararnir Icy G og Hlandri (sem jafnframt tilheyra samvinnuhópnum Rari Bois) frá sér myndband við lagið Swervin (Remix) en um ræðir endurhljóðblandaða útgáfu af samnefndu lagi eftir 070 Shake. Lagið hljómar iðulega á skrifstofu SKE þessa dagana – enda viðlagið sérdeilis grípandi.
HUGINN
Aðeins er tæp vika liðin frá því að Huginn sendi frá sér myndband við lagið Gefðu mér einn en myndbandið, sem var að hluta til tekið upp í Vesturbæjarlauginni, skartar gestum á borð við Birni og Aroni Can. Lagið er ákveðinn eyrnarormur.
KRABBA MANE
Krabba Mane tróð upp á hljómleikaröðinni Ís í brauðformi á Prikinu í fyrra ásamt Lexi Picasso og Aroni Can. Hér fyrir neðan má hlýða á endurhljóðblandaða útgáfu af þekktu stefi frá ríkisútvarpinu – dásamlegt.
Að lokum minnum við á skemmtilegt viðtal við forsprakka Stage Dive hátíðarinnar Mælginn þar sem hann ræðir meðal annars tilurð tónleikaraðarinnar: