Auglýsing

Stikla úr heimildarmynd um Carrie Fisher og Debbie Reynolds

Sagan geymir minningar um margar magnaðar mæðgur: Mary Wollstonecraft (höfundur bókarinnar Til varnar réttindum konunnar) og Mary Shelley (sem ritaði hina sígildu Frankenstein); Nóbelsverðlaunahafana Marie Curie (sem var jafnframt fyrsta konan til þess að vinna verðlaunin) og dóttur hennar Irène Joliot-Curie (sem vann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1935); og Anne Boleyn (drottningu Englands á árunum 1533-1536) og Elísabetu I (sem var einnig drottning Englands, og það í 44 ár). 

Nýverið kvaddi heimurinn aðrar slíkar og stórbrotnar mæðgur. 

Laugardaginn 7. janúar mun sjónvarpsstöðin HBO sýna heimildarmyndina Bright Lights, sem fjallar um samband mæðgnanna Carrie Fisher og Debbie Reynolds, en í dag gekk stikla úr heimildarmyndinni (sjá hér fyrir ofan) á milli vefmiðla. 

Carrie Fisher, sem er frægust fyrir hlutverk sitt sem Princess Leia úr Star Wars myndunum, lést síðastliðinn 27. desember eftir að hafa fengið hjartaáfall um borð í flugvél. Hún var 60 ára gömul. Móðir Fisher, leikkonan Debbie Reynolds (sem varð heimsfræg árið 1952 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Singing in the Rain, þar sem hún lék á móti Gene Kelly) lést degi seinna, 28. desember.

Fisher og Reynolds, sem bjuggu hlið við hlið í Beverly Hills, áttu mjög sérstakt og náið samband. Minningarathöfn fyrir mæðgurnar fer fram í Beverly Hills fimmtudaginn 6. janúar og verða þau jörðuð saman föstudaginn 7. janúar í Forest Lawn Memorial garðinum í Los Angeles. 

Hér fyrir neðan má lesa nokkrar góðar tilvitnanir í Carrie Fisher, en hún var ekki einvörðungu hæfileikarík leikkona, heldur einnig góður penni.

„Ef líf mitt væri ekki fyndið væri það bara satt, og það, fyrir mér, er ósættanlegt.“

– Carrie Fisher

„Mér finnst ég tækla eigin geðveiki af miklum andlegum heilindum.“

– Carrie Fisher

„Það besta við velgengnina er peningurinn, ferðalögin og allt fólkið sem maður kynnist. Það versta við velgengnina er, aftur, peningurinn, ferðalögin og allt fólkið sem maður kynnist.“

– Carrie Fisher

„Stundum er eina leiðin til himnaríkis sú að bakka, hægt og rólega, út úr helvíti.“

– Carrie Fisher

„Ég haga mér líkt og manneskja í loftvarnarbyrgi sem er að reyna fjörga andrúmsloftið.“

– Carrie Fisher

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing