Auglýsing

Tónlistarmenn sniðganga innsetningarathöfn Trumps

Næstkomandi 20. janúar tekur Donald J. Trump við embætti forseta Bandaríkjanna og verður hann þar með 45. Bandaríkjamaðurinn til þess að gegna embættinu. 

Hefð er fyrir því vestan hafs að ýmsir þjóðþekktir listamenn komi fram á vígsluhátíð forsetans („Inauguration Ceremony“); þegar Barack Obama tók við embættinu árið 2009 stigu ýmsar stórstjörnur á svið, þar á meðal Beyoncé Knowles, Aretha Franklin, Jay-Z, Mariah Carey, Alicia Keys og Stevie Wonder. Ricky Martin og Jessica Simpson komu fram á innsetningarhátíð George W. Bush árið 2001 og Frank Sinatra söng fyrir John F. Kennedy árið 1961.

Erfiðlega hefur gengið fyrir Trump að ráða tónlistarmenn til þess að koma fram á innsetningarhátíðinni. Samkvæmt fréttasíðunni The Daily Beast hafa fjölmargir tónlistamenn þegar afþakkað boð Trumps, þar á meðal Elton John, Justin Timberlake, Katy Perry, Bruno Mars, Aretha Franklin, Andrea Bocelli, Garth Brooks, Kiss og Kanye West. 

Sá orðrómur hefur gengið á milli manna að Trump hafi reynt að múta tónlistarmönnum með því að bjóða þeim opinberar stöður innan ríkisstjórnarinnar, t.d. sem sendiherrar. Einnig virðist hann vera tilbúinn til þess að rjúfa hefð með því að greiða tónlistarmönnum fyrir að koma fram. 

Samkvæmt BBC hefur ein söngkona staðfest komu sína: hin lítt þekkta Jackie Evancho, fyrrum þátttakandi í America’s Got Talent, en hún kemur til með að syngja þjóðsöng Bandaríkjanna. Einnig mun Mormon Tabernacle kórinn koma fram ásamt danshópnum the Radio City Rockettes. 

Nánar: 

https://www.theguardian.com/us…

https://www.rollingstone.com/po…

https://www.thedailybeast.com/a…

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing