„Segjum að ég sé í Texas. Segjum að ég fari í bíó, og segjum að ég fái mér sæti fyrir miðju, í stórum, fjölmennum sal. Segjum svo að tveir gamlir karlar fái sér sæti fyrir aftan mig og byrji að tala, haldi síðan áfram að tala þó svo að myndin sé byrjuð – og þó svo að ég sussi á þá ítrekað. Segjum svo að ég glati þolinmæðinni, standi upp og berji einn af gömlu körlunum með kylfu, eða barefli, eða einhverjum meinfýsnum hlut sem ég gekk með í vasanum . Segjum að gamli maðurinn falli, linist allur – eins og baunapoki – og kveðji þennan heim á sérdeilis óhátíðlegan hátt. Segjum að lögreglan setji mig í járn, að dómarinn úrskurði mig sekan og að mér sé ýtt upp í fangarútuna, stuttaralega, og skutlað á dauðaálmuna, ásamt öðrum hvatvísum, sekum mönnum. Segjum að ég sé þar, í klefanum, að lesa Biblíuna, að reyna að sannfæra Frelsarann um eigið sakleysi – að ég sé að teygja hugtakið SIÐFERÐI til í huganum, eins og að SIÐFERÐI sé lítil lopapeysa prjónuð á börn, og að ég sé að reyna smeygja mér í hana með því að toga hana til: ,Það er dónalegt að tala í bíó, Jesú (kraginn rifnar) – og sérstaklega á frumsýningu American Sniper (það myndast gat á erminni); í raun voru þetta föðurlandssvik, ekkert annað. Þetta var fullkomlega réttlætanlegt (peysan rifnar í tvennt)’. Já, segjum þetta allt. Segjum að dagur sé að kvöldi kominn og að síðasta máltíðin sé framreidd í gegnum lúguna á klefahurðinni. Hún myndi líta svona út …“. Ég hugsaði þetta allt með sjálfum mér.
Ég sat á Steikhúsinu á Tryggvagötunni, hafði pantað mér 300 gramma nautafillet með Bernaise sósu ásamt bakaðri kartöflu og var að sötra á húsvíninu – Morandé Gran Reserva Syrah (Chile). Þetta var svo fullkomið, eitthvað. Ef ég væri, í raun, þessi maður sem væri að veslast upp á dauðaálmunni, að glíma við siðferðiskenndina, þá mundi ég kjósa þessa máltíð – þessa! – sem mína síðustu.
Steikhúsið er einn af mínum uppáhalds stöðum. Þar hannar maður réttinn sjálfur: kjöt, sósa, meðlæti – alveg eins og á dauðaálmunni. Svo er þjónustan líka svo góð.
Orð: Skyndibitakúrekinn