Óska eftir aðstoð í gegnum Karolina Fund
Það eru 12 ár liðin síðan hin goðsagnakennda hljómsveit, The Zuckakis Mondeyano Project (e. TZMP), gaf út sína fyrstu breiðskífu, „The Album“. Liðsmenn hljómsveitarinnar, þeir Árni Kristjánsson og Steinn Linnet, hafa verið búsettir í sitthvorri heimsálfunni um nokkurt skeið en nýtt hvert tækifæri þegar þeir hittast til að halda uppi heiðri sveitarinnar með tónleikum og lagasmíðum.
Önnur breiðskífa þeirra mun bera titilinn „Anthology: Simply the best“. Kapparnir hafa samið mörg lög á þessum 12 árum og er ætlunin að safna þeim saman og bæta við nokkrum glænýjum lögum til að mynda eina heilsteypta og safaríka breiðskífu.
Til að ná markmiðum sínum og gera hlutina á eigin vegum, óháð plötuútgáfum, freistar hljómsveitin þess að safna áheitum fyrir plötunni í gegnum Karolina Fund. Þar er hægt að fjárfesta í verkefninu með upphæðum allt frá $2 upp í $500. Með hverri styrktri upphæð fylgir eitthvert visst gúmmelaði og því eitthvað sem allir ættu að geta hjálpað til með. Þegar þessi grein er rituð eru 65% af settu markmiði náð en söfnuninni lýkur þ. 14. ágúst næstkomandi.
Um þessar mundir er hljómsveitin að leggja upp í tónleikaferðalag um Japan, þar sem Earl Mondeyano (Árni Kristjánsson) er búsettur. Með í för er japanska hljómsveitin YMCK.
Lestu meira um verkefnið, sögu hljómsveitarinnar og hvernig þú getur hjálpað til við þessa merkilegu menningaruppbyggingu með því að fara inn á heimasíðu verkefnisins á Karolina Fund, hér fyrir neðan: