Auglýsing

Dóri DNA

„Ef þessar bólur eru þrjú ár: gleymdu því! Við höfum verið að síðan 2009.“

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Halldór Laxness Halldórsson
Ljósmyndir: Allan Sigurðsson

SKE: Karlmennskan er dauð. Karlmennskan er dauð – ég gróf hana í garðinum. Ég reif af mér upphandleggsvöðvana og fyrirsjáanlega nýtískulega skeggið og kastaði þeim ofan í holuna sem ég hafði grafið, grafið með beinum framliðinna kvenna. Svo teygði ég mig langt inni í undirmeðvitundina, eins og upp afturendann á íslensku jórturdýri, og togaði út allar þær hugmyndir sem þar hvíldu – svo kastaði ég þeim ofan í gröfina af heift. Því næst tók ég skylduást mína á vélum og íþróttum og hnefaleikum og fleygði þeim ofan í gröfina líka. Svo stóð ég þarna: Kynlaus. Nakinn. Grautarlegur. Tunglsljósið baðaði mig í gulri angist. Án karlmennskunnar var ég handritssnauður. Týndur. Ég staulaðist á barinn, pantaði mér bjór, þambaði hann, og – á leið minni á klósettið – rakst karlmaður utan í mig og sagði mér að fokka mér. Mig langaði að spenna upphandleggsvöðvana, strjúka skeggið og berja manninn; mig langaði að slíta af honum andlitið og skilja það eftir í krukkunni á barborðinu; mig langaði að snæða á ófæddu börnunum hans. En svo mundi ég að upphandleggsvöðvarnir voru farnir og skeggið líka – og að ég var hættur að hafa sérstakt dálæti á hnefaleikum. Ég afsakaði mig, auðmjúklega, og karlmaðurinn gekk sinn veg. Eftir á að hyggja er mikill léttir að hafa grafið karlmennskuna. Ég hef ekki slegist í átta ár … Ég rifjaði þetta atvik upp, á Prikinu, þar sem ég sat og beið eftir fyrrum skólabróður mínum, Halldóri Halldórssyni. Í fyrstu ljóðabók Halldórs, Hugmyndir: andvirði hundrað milljónir, er karlmennskan í ákveðnu fyrirrúmi. Við ræddum karlmennskuna, kveðskapinn, kómíkina, Rapp í Reykjavík – ásamt Halldór Kiljan Laxness. Halldór var, að vanda, hnyttinn og létt um mál.

SKE: Uppáhalds ljóðið mitt í bókinni er Nýr dagur í Eyjafirði, lokaljóðið. Söguhetjan er einhvers konar útrásarvíkingur, sem er jafnframt karlmennskan uppmáluð – en hefur upplifað mikla sorg. Þessi maður á allt, en honum líður samt best upp í sveit, að smíða með verkamönnunum sem eru að byggja sumarbústaðinn hans …

Dóri: Þetta er óður til alls sem ég elska: ríkidæmi, ofgnótt, þessi heiti einstaklingur, sem í brjósti hvers leynist djúpstæð sorg. Ég skrifaði þetta ljóð algjörlega af fingrum fram. Ég settist niður, byrjaði á byrjuninni og skrifaði þetta til enda. Ljóðinu var aldrei breytt. Ég slysaðist til að snerta taug.

SKE: Hver var kveikjan að þessu ljóði?

Dóri: Hún var þessi: Ef ég mundi spóla fram í tímann, 20-30 ár, og horfa til baka, á sigra og töp, hvernig yrði þessi farvegur? Karlmennskan er ákveðið þema í þessari bók, en fyrir algjöra slysni. Ég heillast rosalega mikið af karlmannlegum kostum. Smiðir sem kunna að gera og græja: Mér finnst þeir vera geggjuðustu náungarnir. Vanir menn, ég heillast mikið af þeim. Þetta er kannski hallærislegt og hart og óviðkunnanlegt en þetta er eins og þetta er. Það er það sem ég er ánægðastur með í bókinni. Síðan kemur þetta kannski óvart heim og saman í síðasta ljóði bókarinnar.

Ég heillast rosalega mikið af karlmannlegum kostum. Smiðir sem kunna að gera og græja: Mér finnst þeir vera geggjuðustu náungarnir.

– Dóri DNA

SKE: Það er svo mikil togstreita þarna á milli, á milli þess að vera listamaður og að vera karlmenni. Það er kannski það sem gerir bókina svona áhugaverða: Þessar andstæður eru að glíma svo bersýnilega fyrir framan mann.

Dóri: Þeir sem hafa heillað mig mest eru líka þannig menn, þar sem þessi togstreita er alls ráðandi: Ernest Hemingway, til dæmis …

SKE: Theodore Roosevelt?

Dóri: Roosevelt, Bertolt Brecht. Hugmyndir Brecht um leikhúsið spruttu af stórum hluta út frá því hvernig hann horfði á hnefaleika. Albert Camus …

SKE: Dó hann ekki í mótorhjólaslysi?

(Blaðamaður áttar sig á því seinna, að Camus dó ekki í mótorhjólaslysi, heldur í bílslysi. Svona er það stundum, þegar maður reynir að slá um sig; maður dettur af hjólinu.)

Dóri: Þessir gaurar, sem hafa hvor tveggja þessa hörðu eiginleika en líka þessar mjúku hliðar, þeir heilla mig mest. Þetta var svolítið í uppeldinu mína líka. Mamma er alin upp á menningarheimili í Mosfellsdalnum, á Gljúfrasteini – en, samt sem áður, í sveit, í kringum hestamennsku og þar sem það er ákveðið „salt jarðar“ dæmi í gangi. Hún hefur alltaf fundið ákveðið jafnvægi á milli þessara tveggja heima og faðir minn líka. Hann er MR-ingur úr Vesturbænum sem tekur sér pásu frá fínu bókmenntunum til þess að logsjóða í bílskúrnum, hlusta á Doors og drekka viskí.

SKE: Er þetta ekki hinn goðsagnakenndi íslenski kjarni: víkingarnir sem rituðu falleg ljóð?

Dóri: Kannski, en mér sýnist samt sagan segja okkur annað; hér voru aldrei víkingar – bara ljóðskáld sem óskuðu þess að þeir væru víkingar.

(Við hlæjum.)

Dóri: Það hefur aldrei neitt fundist! Við finnum eitt sverð, af og til, en annars erum við að byggja þetta á mjög lausum grunni. Maður forðast það kannski líka að tala um eitthvað svona séríslenskt …

Það hefur aldrei neitt fundist! Við finnum eitt sverð, af og til, en annars erum við að byggja þetta á mjög lausum grunni.

– Dóri DNA

SKE: Mér finnst samt eins og þessi saga og þessi arfleifð togi í mann eftir því sem maður eldist …

Dóri: Hún gerir það – og þetta er allt saman geggjað! En ég bíð bara eftir því að einhver sýni mér þetta á nýjan hátt. Ég bíð eftir víkingamyndinni sem breytir lífi mínu.

(Við ræðum aðeins nýju víkingamyndina hans Baltasars. Inn gengur maður með Havana Club flösku í hendi. Þetta er karlakarl: hraustlegur, hress, útþaninn, kannski einn af þessum mönnum sem Dóri dáist að.)

Dóri: Nei! Gengur þú bara inn með Havana Club flösku í hendi!

(Þeir hlæja, tesósterónið er olían sem tendrar bál hlátursins.)

Ónefndur Karlakarl: Svo fékk ég tvær aðrar flöskur lánaðar á Kaffibarnum!

Dóri: Hvað er að gerast!?

Ónefndur Karlakarl: Ég bara gleymdi að fara í Ríkið á laugardaginn og sótti nokkrar fyrir partýið. Það gengur ekki að vera hangsa á einhverjum bar og spreða!

(Þeir taka stutt spjall. Dóri kveður svo karlinn og ég byrja að forvitnast um Laxness eldri.)

SKE: Hvernig var samband þitt og afa þíns?

Dóri: Hann var byrjaður að kalka aðeins upp úr 1990 (Halldór er fæddur 1985). Ég var náttúrlega alinn upp fjörtíu metrum frá Gljúfrasteini – sem var mitt annað heimili. Ég fór þangað á hverjum einasta degi, alla tíð. En hann var ekki þessi afi sem vaggar manni á hné sínu og gefur manni Werther’s Original. Hann var öðruvísi afi. Ég hef kannski tengst honum meira eftir andlát hans. Ég vann á safninu eitt sumar og las þá Brekkukotsannál. Hún hjólaði í mig. Ég veit að honum þótti mjög mikilvægt að ég yrði skírður Halldór; það var kappkostamál. En í raun var ég alltaf meiri ömmustrákur.

Hann var ekki þessi afi sem vaggar manni á hné sínu og gefur manni Werther’s Original. Hann var öðruvísi afi.

– Dóri DNA um Halldór Laxness

SKE: Laxness var ekki karlmenni, upp á þennan sígilda máta?

Dóri: Nei, enda þegar faðir minn var að smíða hús foreldra minna, þá kom afi stundum og stóð og gapti: „Hvar lærðiru þetta!?“ Honum fannst þetta svo merkilegt. Hann var þessi mikli heimsborgari – en sveitamaður líka. Mamma segir oft söguna þegar hann fór með hana að hitta síðustu forníslendingana, fólk sem bjó í einhverjum moldarkofum. Þá var alltaf annar gállinn á honum … en þetta er smá kross að bera; það var erfitt að vera í Íslensku 400 og lesa bækurnar hans.

(Við færum okkur yfir í nútíðina, sem á í stöðugu samtali við fortíðina.)

SKE: Í hverju ertu að vinna þessa dagana?

Dóri: Ég hef verið að skrifa handrit að sjónvarsþætti, Afturelding. Þátturinn fjallar um gamlan handboltamann sem snýr heim, eftir erfitt ár erlendis. Hann er ráðinn sem þjálfari kvennaliðs Aftureldingar. Handritsvinnan er hæg; maður er stöðugt að negla eitthvað og gefa fólki fimmu, svo fer maður heim, sefur á þessu – og mætir daginn eftir með bakþanka.

(Ég hlæ.)

Dóri: Þetta er verkefni mitt og Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, en við réðum til okkar tvo aðra penna: Jörund Ragnarsson og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttir.

(Dóri fer nánar út í þær fræðilegu kenningar sem varða sjónvarpsþáttargerð. Þar eru einstakir bókstafir í fyrirrúmi, og tákna ýmis óræðin kaflaskil.)

Dóri: Þetta er skemmtilegt ferli. Við kynntum þetta verkefni fyrir norrænum sjónvarpsstöðvum um daginn og þar var mikill áhugi.

SKE: Hver er að fjármagna þetta hérna heima?

Dóri: Við unnum samkeppni á vegum RÚV. Þar vorum við meðal rúmlega 70 umsækjenda og sigruðum. Við fengum fínan pening fyrir vikið, úr leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephenssen. En ef það er eitthvað sem ég hef lært af Hafsteini Gunnari þá er það þetta: Þú ert ekki að gera neitt í þessum bransa fyrr en búið er að millifæra peninginn og það er búið að ýta á „rec“ á upptökuvélinni.

Þú ert ekki að gera neitt í þessum bransa fyrr en búið er að millifæra peninginn og það er búið að ýta á „rec“ á upptökuvélinni.

– Dóri DNA

(Við hlæjum.)

Dóri: Maður má í rauninni ekki tala um þessa hluti. Þetta getur allt farið „up in flames!“

SKE: Ég skil þig …

Dóri: Síðan hef ég líka verið að leggja lokahönd á þættina Rapp í Reykjavík. Við eigum bara eftir að tala við Úlf Úlf og Gísla Pálma. Ég var að sjá myndbrot um daginn og er mjög ánægður með þessa þætti. Gallinn við rapp er sá að rappið er svo töff, og verður því, oft á tíðum, mjög „over-hype-að“.

(Dóri líkir eftir einhverjum ýktum þáttastjórnanda, sem reynir að spegla svalt viðmót viðmælanda síns, en án árángurs; þetta er of áreynslumikið.)

Dóri: Við reynum að toga þetta niður á jörðina og búa til heimild. Við settum okkur þær skorður fyrir þáttinn að tala einvörðungu við þá sem voru að gera rapptónlist árið 2015 – við náðum ekki einu sinni að tala við alla. Við völdum þá sem voru mest áberandi og sem hentuðu best okkar frásögn. Við fórum að lyfta með Emmsjé Gauta, fórum í Kost með GKR, elduðum Thai mat með Erpi og fórum á bar með Bent. Þetta eru frekar lágstemmdir þættir sem ég er afar stoltur af. Mögulega munu hamborgaraheilarnir ekki kveikja á þessu strax en ég held að þegar fram líða stundir verði þetta eitthvað sem er þess virði að skoða.

SKE: Og þetta kemur út hvar?

Dóri: Stöð 2. Gaukur Úlfarson leikstýrir þáttunum og hann er, í raun, heilinn á bakvið þetta verkefni.

(Dóri segir að þátturinn sé að einhverju leiti innblásinn af heimildarmyndinni Rokk í Reykjavík og bætir því við að Rapp í dag svipi kannski til Gus Gus á 10. áratugnum, sem var þá einhvers konar fjöllistarhópur. Þetta er hópur fólks sem semur eigin tónlist, tekur upp myndbönd og markaðssetur sig.)

Dóri: Til dæmis „brand-ið“ Gísli Pálmi; hann er ekki á leiðinni í einhverja hangikjötssmökkun hjá DV um jólin – hann stýrir þessu „brand-i“ mjög varfærnislega. Sturla Atlas er að selja fokking buff! Þetta eru merkilegir tímar.

(Ég hugsa til Sturla Atlas, sem ég sá í badminton um daginn. Hann var merkilega sprækur.)

Dóri: Það er oft talað um bólur á svona tímum. Allt er bóla – og bólan er, samkvæmt einhverjum fræðum, alltaf þrjú ár. Arnar Eggert spáði því að það væru mögulega sex ár í það að þessi bóla næði hámarki – og svo lægi leiðin niðrávið. Eitt af fyrstu merkjum þess að bólan sé að springa er að það var rapplag í Eurovision í ár. Rappið mun hægt og bítandi missa kúlið.

Eitt af fyrstu merkjum þess að bólan sé að springa er að það var rapplag í Eurovision í ár. Rappið mun hægt og bítandi missa kúlið.

– Dóri DNA

SKE: 2015 var ruglað ár hvað íslenska rapptónlist varðar.

Dóri: Sturlað. Persónulega tók ég því mjög illa að rapptónlist hafi nánast verið sniðgengin á íslensku tónlistarverðlaununum. Úlfur Úlfur fékk sitt, en mér finnst það hálf lýsandi fyrir þessa hátíð, vegna þess að Úlfur Úlfur er svona þóknanleg rapptónlist; þeir eru utan af landi og eru oft með mjög grípandi viðlög. Þó svo að Úlfur Úlfur sé sturluð hljómsveit og eigi allt gott skilið að þá fór það svolítið í taugarnar á mér að punkturinn hafi verið settur þar. En svo eins og einhver benti á: Hverjum er ekki drullusama um íslensku tónlistarverðlaunin! Við erum að fást við hluti á stærri skala! Í alvöru talað. Gleymum þessu. En það er leiðinlegt að geta ekki, eftir tíu ár, farið og litið yfir söguna …

Hverjum er ekki drullusama um íslensku tónlistarverðlaunin! Við erum að fást við hluti á stærri skala! Í alvöru talað. Gleymum þessu.

– Dóri DNA

(Dóri horfir út um gluggann og kemur auga á útgefanda ljóðabókarinnar hans.)

Dóri: … og séð það greinilega að það hefur verið mikil uppsveifla í íslenskri rapptónlist á þessum tíma. En ég veit það ekki; á stafrænni öld, gleymist kannski aldrei neitt. Þessu verður alltaf haldið til haga.

(Ég spyr Dóra hvort að hann sé hættur að rappa fyrir fullt og allt. Á sínum tíma vorum við báðir flinkir að freestyle-a og Dóri hafði sérstakt lag á punch línum.)

Dóri: Ég hef aðeins verið að rappa fyrir þáttinn. Ég tók rímu með Gauta í lagi, sem verður kannski á plötunni hans. En ég sé að ég er búinn að missa af lestinni. Ég hafði alltaf mikla trú á sjálfum mér sem rappara. Í dag finn ég að það eru nýjar pælingar hvað flæði varðar og ég er ennþá fastur í gamla skólanum. Ef ég mundi gefa mér tíma, kannski, en kannski er ágætt að játa sig sigraðan.

SKE: Er ekki ágætt að leyfa sköpunargáfunni að flæða meðfram öðrum rásum, í bókmenntunum eða öðru.

Dóri: Algjörlega. Ég gerði mér alltaf grein fyrir því að ég mundi ekki hafa áhuga á þessu að eilífu. Sem er kannski gallinn við mig: eðli þúsundþjalasmiðsins. Mig langaði að gera svo margt annað. Ég áttaði mig á því alltof seint, þegar ég útskrifaðist úr Listaháskólanum, hvað ég hafði mikinn áhuga á því að koma fram. Í dag er ég á krossgötum. Ég og Saga skrifuðum þetta leikrit (Þetta er grín, án djóks) og það var frábær reynsla. Kannski er ég bara flinkari í því að skrifa. Samt óttast ég það að halda þessum tveim boltum á lofti og missa þá báða. Hins vegar er lausnin mín yfirleitt sú – þegar það er svona margt í gangi – að stoppa aldrei og hugsa um hvað ég er að gera: bara áfram og áfram og áfram! Um leið og þú stoppar þá kemur þessi sjálfsefi: Kannski er þetta ekki nógu gott?

(Dóri segir að ofan á þetta allt saman sé MiðÍsland ennþá að sýna fimm sinnum í viku.)

SKE: Hefur sýningin ekki yfirleitt klárast í mars?

Dóri: Fyrsta árið okkar gekk sýningin út maí, þegar við fengum um 14.000 gesti. Í dag erum við sáttir ef við förum yfir 10.000. Á tímabili hafði ég áhyggjur af því – vegna þess að menn virtust vera hættir að missa sig yfir sýningunni á Twitter – að við værum að breytast í Spaugstofuna. En síðan hugsar maður: Þetta er uppistand. Við erum ekki að finna upp hjólið. Ef fólk kaupir sér miða og mætir á sýninguna þá er það alveg nóg. Kannski er einhver uppistandsbóla í gangi núna, en, nota bene, við byrjuðum 2009. Ef þessar bólur eru þrjú ár: gleymdu því! Við höfum verið að síðan 2009.

Á tímabili hafði ég áhyggjur af því – vegna þess að menn virtust vera hættir að missa sig yfir sýningunni á Twitter – að við værum að breytast í Spaugstofuna.

– Dóri DNA

SKE: Og þetta byrjaði allt saman hér, á Prikinu.

Dóri: Þarna, í horninu.

(Dóri bendir út í horn. Þar sitja tveir túristar og snæða í hljóði.)

Dóri: Ég mætti þarna eins og flugdreki, flutti fimmtíu mínútna sett – allt efnið mitt. Ég var ekki einu sinni með sett; þetta var bara samansafn af pælingum sem mögulega enduðu á einhverju skondnu. En fólk var til í þetta. Síðan þá höfum við allir haft uppistandið að megin atvinnu. Vandamálið mitt með uppistand er það að ég er ekki tilbúinn að gefa mig allan í það. Það sem mig skortir er þessi viðleitni að mæta á öll „open mic“ kvöld bara til þess að skerpa á efninu. Þetta er hægt á Íslandi í dag, það er uppistand út um allt: Á Gauknum, Rósenberg, Bar 11, Stúdentakjallarnum. Mig langar að vera þessi maður sem mætir á alla þessa staði, treður upp í fimm mínútur og skítur á sig, listarinnar vegna.

SKE: Ertu ekki bara of mikill fjöllistarmaður?

Dóri: Mögulega. En svo er þetta líka þannig að þú færð tekjur sem uppistandari, sem halda þér á floti allt árið. Það er bölvunin við þetta „freelance“ líf: Maður getur ekki sagt nei við neinu, vegna þess að maður þarf á peningnum að halda. En ég er í fyrsta skiptið að komast á þann stað þar sem ég hef ekkert skemmt. Ég sagði nei við öllu í ár, fyrir utan árshátíð Byko. En ef það kemur aftur að því að bankareikningurinn er að tæmast, þá fer ég aftur að skemmta á árshátíð Blómavals!

SKE: Hvert stefnirðu?

Dóri: Ég er afskaplega stoltur af ljóðabókinni, það er einhver tónn í henni: Þarna er ég. Hitt er bara húbris. En að vera ljóðskáld – það borgar sig ekki. Það er vanþakklátt starf. Ég hélt einhvern veginn að ég mundi fá þakkarbréf frá íslensku samfélagi eftir að bókin kæmi út.

Ég hélt einhvern veginn að ég mundi fá þakkarbréf frá íslensku samfélagi eftir að bókin kæmi út.

– Dóri DNA

SKE: En viðbrögðin voru góð?

Dóri: Ég bjóst við því að ég mundi selja 15.000 eintök – en síðan er þetta talið í einhverjum hundruðum … ætli að ég haldi ekki áfram á þessari braut. Ég er aðeins byrjaður að pára fyrir næstu bók. Svo er það alltaf skáldsagan líka. Ég hef ekki ennþá fengið hugmynd sem fer yfir 200 síður. Ég bíð svolítið eftir því. Hvað framtíðina varðar, þá langar mig til þess að leika og leikstýra. Ef Afturelding verður að veruleika þá kem ég til með að stýra þeim þætti („show-runner“ á ensku). Það væri blautur draumur. Þetta er allt á réttri leið en þetta er ekki allt í hendi, veistu hvað ég meina?

SKE: Ég skil þig.

Dóri: Mér finnst líka svo gaman þegar það er allt í húfi. Mig langar til þess að taka risalán, flytja í risahús, kaupa mér risajeppa og bara duga eða drepast! Annað hvort næ ég að borga þetta upp eða ekki! Þá þarf ég bara að skila því og flytja annað og ef allt fer á versta veg – þá fer ég og læri smíðar.

(Ég spyr Dóra nánar um þessa ást hans á smíðum.)

Dóri: Ég gerði upp íbúð og skoðaði myndbönd á Youtube í leiðinni. Þar var einn gæi, sem heitir DiResta, einhvers konar hipster smiður í Brooklyn. Hann segir ekkert í myndböndunum, lætur bara verkin tala. Þetta veitir mér einhverja djúpstæða hamingju, að setja á mig svuntuna, fá mér kaffi og smíða. Þú þarft þessar 10.000 klukkustundir til þess að vera fær. Ég á langt í land.

(Við ræðum aðeins miðbæ Reykjavíkur.)

Dóri: Ég dýrka miðbæinn og ég þoli ekki þetta Lundabúðapíp: „Life will find a way,“ svo ég vitni í Jurassic Park. Við erum á umbrotatímum núna; Grandinn er að lifna við, Borgartúnið er orðið að einhvers konar Wall Street. Leyfið Reykjavík að koma ykkur á óvart. Hvaða búðir eru að hrekjast í burtu? Gullsmiðir? Ég vorkenni þeim ekki neitt – þeir eru að sýsla með gull!

Hvaða búðir eru að hrekjast í burtu? Gullsmiðir? Ég vorkenni þeim ekki neitt – þeir eru að sýsla með gull!

– Dóri DNA

(Við hlæjum.)

Dóri: Á sínum tíma mótmælti fólk Þjóðleikhúsinu – sem er, óneitanlega, fallegasta bygging í Reykjavík. Stundum sé ég Þjóðleikhúsið og hugsa hversu heppinn ég er að hafa fengið að vinna þarna. Fólk var á móti Hallgrímskirkju, sem er okkar helsta kennileiti í dag.

SKE: Svo lengi sem að Fjörðurinn í Hafnarfirði rísi ekki upp hérna í bænum.

Dóri: Auðvitað þurfum við að vera á tánum, en ljótar byggingar segja líka sína sögu. Eitt ljótasta hús í Reykjavík er Korputorg lengjan á móti Bauhaus. Ég er farinn að fíla það fyrir draslið sem það er! Maður er kominn í eitthvað úthverfi og þar er eitthvað svona rugl.

(Bergur Ebbi berst í tal.)

Dóri: Ég væri ágætur ef ég fengi að deyja í farþegasæti við hliðina á Bergi Ebba því að við komumst í svo mikið stuð!

(Allan ljósmyndari gengur inn um dyr Priksins og Dóri heilsar honum innilega SKE þakkar Dóra DNA kærlega fyrir spjallið. Við mælum hvor tveggja með ljóðabókinni Hugmyndir: andvirði hundrað milljónir, ásamt sýningu MiðÍslands í kjallara fallegustu byggingu Reykjavíkur: Þjóðleikhúsinu.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing