Auglýsing

„Ekki bara æfingar fyrir líkamann heldur sálina líka.“

SKE: Á gamalsaldri sagði franski rithöfundurinn,
og fyrrverandi ríkisstjóri Bordeaux, Michel de Montaigne að það
væri eitt af forréttindum hugarins að geta bjargað sjálfum sér
frá ellinni. Við og við, hinsvegar, óttaðist Montaigne að
hugurinn væri svikull; böndin á milli hans og líkamans
væru svo sterk og bróðurleg að hugurinn virtist yfirgefa hann
reglulega til þess að eltast við þarfir líkamans: „Enginn
fjörleiki þrífst í huganum ef líkaminn skortir frískleika á
sama tíma.“ SKE er innilega sammála þessari athugun Montaigne og
finnst því mikilvægt að rækta líkamann jafnt og sálina,
sérstaklega um jólin. Fyrir stuttu heyrðum við því í
einkaþjálfaranum og söngkonunni Agnesi Kristjónsdóttur, sem er
einkar meðvituð um þessa speki Montaigne, að okkar mati. Lögðum
við fyrir hana nokkrar viðurkvæmilegar spurningar.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Agnes Kristjónsdóttir

SKE: Hver er fljótasta
leiðin til þess að koma sér í form? Eða gerast góðir hlutir
hægt?

Agnes: Gerast hægt en örugglega, ef þú mætir.

SKE: Er líkamsrækt bara
skipulögð þjáning, sem sprettur upp frá hégomanum, er
viðhaldin af vananum og upphafin af lygunum.

Agnes: Hmmmm…….

SKE: Eflaust hefur þú
upplifað mörg vandræðaleg augnablik í ræktinni (alls kyns
furðufuglar svífa þar inn). Eftirminnilegasta atvik?

Agnes: Þegar ég gekk á hnébeygjustöng og rotaðist.
Rankaði við mér á gólfinu með einn heitasta piparsvein landsins
(hann gengur ekki lengur laus) stumrandi yfir mér.

SKE: Uppáhalds tilvitnun?

Agnes: Sleppa tökunum og treysta lífinu, allt er eins og
það á að vera.

SKE:
Ef þú yrðir að selja færni þína sem einkaþjálfari í þrjátíu
sekúndna langri lyftuferð – hvernig myndi sú söluræða hljóma?

Agnes: Ég skal kenna þér það sem ég kann og hef gert til
að ná mínum árangri. Við viljum vera sterk og í okkar besta
formi; lyfta lóðum til að styrkja beinin, liðka okkur og svo þarf
stundum að læra að slaka á og það skal ég kenna þér. Ekki
bara æfingar fyrir líkamann heldur sálina líka: það fer saman.
Engir f…… kúrar, heldur litlar lífstílsbreytingar sem virka.
Lífið er núna og við eigum að vera ánægð með okkur í
dag, en ekki seinna. Þetta verður krefjandi en gaman; ég lofa. Það
eina sem þú þarft að gera er að mæta, mæta og mæta.

SKE: Hvort skiptir meira
máli: mataræði eða hreyfing? (Eða á þessi tvískipting bara
alls ekki við?)

Agnes: Mataræði og hreyfing skipta alltaf máli, hversu miklu
máli fer svo eftir því hverju sóst er eftir.

SKE: Uppáhalds “workout”
lag?

Agnes: Lágnætti með Sólstöfum.

SKE:
Á Facebook síðu þinni stendur að markmið þitt sé að fegra
allt í kringum þig, sumsé – að það sé hinn raunverulegi
tilgangur lífs þíns. Hvernig gengur sú viðleitni?

Agnes: Mjög vel, ég er svo dugleg að æfa mig.

SKE: Helsta heilsuráð um
jólin?

Agnes: Mæta á æfingarnar þínar. Ekki sleppa morgunmat,
drekka vel af vatni og borða litríkan mat. Hvíla, ganga með
sjónum, hugleiða, vera góður við fólkið þitt. Vertu þakklátur og gerðu góðverk án þess að nokkur viti af því. Ekki vera
fullur öll jólin (enginn mórall).

SKE: Mesta lexía á
þjálfunarferlinum?

Agnes: Það er aldrei, aldrei of seint að byrja að æfa, gera það sem þig langar til og ná árangri.

SKE: Eitthvað að lokum?

Agnes: Öllum finnst erfitt að byrja að æfa en það fennir
fljótt yfir það og það tekur sig upp gamalt bros. Það að
hugsa vel um líkama og sál er eina fjárfestingin sem er einhvers
virði í alvörunni og skilar sér í allt í okkar lífi. Taktu
sloppadaga heima og slakaðu á (án þess að vera með hita eða
kveisu). Taktu vel á því í ræktinni en hvíldu vel á milli.
Engar öfgar. Lífið er ekki bara svart og hvítt það eru margir
gráir tónar og reyndu að vera mátulegur og elskulegur. Elska og
elska.

(Þeir sem vilja koma sér í form um jólin geta
haft samband við Agnesi með því að senda tölvupóst á agnes.lifstill@gmail.com. Nánari upplýsingar má finna á https://www.worldclass.is/einka…. Hér eru svo lögin Lágnætti og Enginn Mórall.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing